Frjáls verslun - 01.10.2006, Blaðsíða 128
128 F R J Á L S V E R S L U N • 1 0 . T B L . 2 0 0 6
FÓLK
Í október síðastliðnum var Eygló Svala Arnarsdóttir ráðin
vefritstjóri hjá útgáfufyrirtækinu
Heimi. Hefur hún umsjón bæði
með íslenskum og erlendum
vefjum fyrirtækisins: „Ég hef fram
til þessa aðallega verið að einbeita
mér að Icelandreview.com. Ég
uppfæri daglega fréttir af Íslandi
á ensku, daglega pistla um lífið á
Íslandi, myndir, myndbönd og
hljóðskrár og sendi fréttabréf til
lesenda daglega. Vefurinn er í
stöðugri þróun, til dæmis með
sérstakri myndasíðu, spjalli og
máltæki dagsins, svo eitthvað sé
nefnt. Stærsta verkefnið fram-
undan er uppfærsla þýskrar
útgáfu Icelandreview.com. Fyrir-
hugað er að birta fyrstu grein-
arnar á þýsku eftir áramót.
Nýlega var meðaltal heimsókna
á viku mælt, frá miðjum sept-
ember fram í miðjan nóvember,
og borið saman við sömu vikur í
fyrra, og þá kom í ljós að heim-
sóknir hefðu aukist um 80%.
Nú lesa u.þ.b. 9000 manns síð-
una hverja viku. Einnig hef ég
yfirumsjón með vefnum What’s
on, sem er eins konar handbók
fyrir ferðamenn, með vefsíðum
Heims, Tölvuheims og Frjálsrar
verslunar.“
Eygló fæddist í Noregi, ólst
upp á Akureyri og er móðir
hennar norsk en faðir íslenskur:
„Ég á tvo yngri bræður sem báðir
búa í Reykjavík. Kærasti minn
til margra ára, Brynjar Vatnsdal
Pálsson, er heilbrigðisverkfræð-
ingur og er við það að hefja störf
hjá LSH. Við útskrifuðumst bæði
frá Menntaskólanum á Akur-
eyri sumarið 2000. Svo fór ég í
háskólanám til Erfurt í Þýska-
landi og hann lærði í Álaborg.
Ég útskrifaðist úr háskólanum í
Erfurt sumarið 2004 með BA í
samskiptafræði. Síðan lá leiðin til
London þar sem ég lærði alþjóð-
lega fjölmiðlafræði við University
of Westminster.“
Eygló segist alltaf hafa haft
áhuga á hestum og fór þegar hún
var yngri í langa reiðtúra með
fjölskyldunni: „Því miður hef ég
ekki haft möguleika á því að
sinna hestamennsku síðustu árin.
Einnig hef alltaf haft brennandi
áhuga á því að skálda og skrifa
og sem unglingur fékk ég þrí-
vegis verðlaun fyrir smásögurnar
mínar í ritgerðarsamkeppni Sjálf-
stæðisflokksins. Og vegna áhuga
míns á ritstörfum valdi ég fjöl-
miðlafræðina. Ferðalög eru mér
hjartfólgin og má segja að það sé
áhugamálið sem ég og kærastinn
minn eigum sameiginlegt. Mér
finnst gaman að kynnast nýjum
menningarheimum og læra ný
tungumál. Ég á orðið vini úti
um allan heim, hef ferðast víða
um Evrópu og búið í Austurríki,
Þýskalandi, Danmörku og Eng-
landi. Svo hef ég farið til Kúbu,
Kína og Indlands.
Við Brynjar ferðuðumst til
Indlands um jólin í fyrra til að
vera viðstödd brúðkaup vina
okkar. Við skoðuðum Taj Mahal,
fórum með lest frá Dehli til
Góa, sem tók 42 tíma, og fórum
á fílsbak. Þetta var ótrúlega
skemmtileg ferð og brúðkaupið
sjálft gaf okkur einstaka innsýn
í indverska menningu. Fátæktin
á Indlandi kom okkur á óvart.
Við, sem vorum „fátækir“ nem-
endur á þessum tíma, lifðum
kóngalífi, bjuggum á glæsilegu
hóteli, létum dekra við okkur
með hand- og fótsnyrtingu,
pöntuðum mat upp á hótelher-
bergi á öllum tímum sólahrings-
ins og höfðum einkabílstjóra yfir
daginn. Allt öðru vísi líf var
fyrir utan veggi hótelsins, þar bjó
fólk í hreysum við vegkantinn
og betlaði mat af vegfarendum.
Allar goðsagnir sem við höfðum
heyrt af Indlandi reyndust réttar.
Í umferðinni eru engar reglur, sá
sem er frekastur og flautar hæst
kemst leiða sinna, nema það sé
naut á veginum. Konurnar eru
í litríkum klæðum, appelsínu-
gulum, gulum og skærbleikum
sari vafningskjólum, sama af
hvaða þjóðfélagsstigum þær eru
eða hvort þær eru við vegavinnu
eða á ströndinni.“
Nafn: Eygló Svala Arnarsdóttir.
Fæðingarstaður: Tönsberg,
Noregi, 6. ágúst 1980.
Foreldrar: Kari-Mette Johansen
og Arnar Sverrisson.
Maki: Brynjar Vatnsdal Pálsson.
Börn: Engin.
Menntun: BA í samskiptafræði
og MA í fjölmiðlafræði.
vefstjóri Heims
EYGLÓ SVALA ARNARSDÓTTIR
Eygló Svala
Arnarsdóttir: Ég á
orðið vini úti um allan
heim, hef ferðast víða
um Evrópu og búið í
Austurríki, Þýskalandi,
Danmörku og Englandi.
TEXTI:
HILMAR KARLSSON
MYNDIR:
GEIR ÓLAFSSON