Tímarit Máls og menningar - 01.06.1983, Síða 21
Fimm sögur
meðal fólksins — þegar ég þetta kvöld þreif öllum að óvörum
brennivínsflösku sem einhver hafði í gáleysi skilið eftir fyrir utan
búrið mitt, dró úr henni tappann með hárréttu handbragði meðan
athygli samkomugesta fór stöðugt vaxandi, bar stút að vörum og
teygaði hana óhikað og svikalaust í botn án þess að gretta mig, líkt og
þaulvanur drykkjumaður, og ranghvolfdi augunum þegar freyddi um
kverkarnar. Síðan kastaði ég flöskunni frá mér, að þessu sinni ekki
eins og ráðvillingur heldur eins og listamaður; gleymdi að vísu að
strjúka vömbina; en þess í stað, af því að ég réð ekki við það, af því að
það varð að fá útrás, af því að skilningarvit mín ólguðu, þá öskraði ég
stutt og laggott „Halló!“ með mennskum hljóðum. Með þessu hrópi
stökk ég inn í mannasamfélagið og mér fannst bergmál fólksins:
„Heyrið, hann talar!“ vera eins og koss á allan svitastokkinn líkama
minn.
Eg endurtek: mér fannst ekkert freistandi að líkja eftir mönnun-
um; ég líkti eftir þeim vegna þess að ég leitaði að leið og af engri
annarri ástæðu. Þessi sigur minn dugði líka skammt. Röddin brást
mér strax aftur; mánuðir liðu áður en ég fékk hana á ný; andúðin á
brennivínsflöskunni varð meira að segja magnaðri en nokkru sinni.
En hvað sem því leið var stefna mín endanlega mörkuð.
Þegar ég var látinn í hendur fyrsta tamningamanninum í Hamborg
gerði ég mér fljótlega grein fyrir því að ég hafði tvennt um að velja:
dýragarð eða fjölleikahús. Ég hikaði ekki. Ég sagði við sjálfan mig:
legðu þig allan fram um að komast í fjölleikahúsið; það er undan-
komuleiðin; dýragarður er aðeins nýtt rimlabúr; ef þú lendir þar ertu
glataður.
Og ég lærði, herrar mínir. Æ, maður lærir þegar maður verður að
gera það; maður lærir þegar maður þarfnast undankomuleiðar; mað-
ur lærir skilyrðislaust. Maður sveiflar svipunni yfir sjálfum sér;
maður flær hold sitt við minnsta mótþróa. Apaeðlið ruddist burt úr
mér með offorsi og hvarf svo að fyrsti kennari minn varð sjálfur
næstum apalegur af þessu öllu saman, hann varð brátt að hætta
kennslunni og var fluttur á heilsuhæli. Til allrar hamingju komst
hann fljótlega þaðan aftur.
En ég sleit mörgum kennurum, já, meira að segja nokkrum í einu.
Þegar ég var orðinn öruggari um færni mína og yfirvöldin fóru að
sýna áhuga á framförum mínum og þegar framtíðin var byrjuð að
251