Tímarit Máls og menningar - 01.12.1988, Qupperneq 25
Gegn straumi aldar
Þetta lýtur að afstöðu hans til Þýskalands Adolfs Hitlers - Þriðja ríkis-
ins.
Nú eru röskir fjórir áratugir síðan þetta ríki hvarf í ösku og reyk og mál
til komið að hér sé talað hispurslaust um afstöðu manna til þess og hug-
myndafræði þess - ekki síður hér en í öðrum löndum.
Það er svo undarlegt að því er líkast sem Þýskaland Hitlers yfirskyggi
alla aðra sögu Þýskalands á þessari öld - jafnvel öllum öldum - og þó voru
þetta ekki nema tólf ár, raunar ekki nema sex ár, 1933-39, sem landið var
nokkurn veginn opið til samskipta fyrir útlendinga. Síðari sex árin geisaði
styrjöldin sem hindraði öll eðlileg mannleg skipti við umheiminn.
Tengsl Gunnars við þýskt menningarlíf, bókmenntamenn, þýðendur og
útgefendur voru orðin tveggja áratuga gömul þegar nasistar komust til
valda, en samt voru næstu sex árin sennilega örlagaríkust ef við eigum að
taka okkur svo stór orð sem menningarbyltingu eða hrun heimsmyndar í
munn í sambandi við höfundarferil Gunnars Gunnarssonar.
Strax fyrir 1913 var Gunnar kominn í sambönd við þýska þýðendur, en
það ár lést fyrsti þýðandi hans Erich von Mendelssohn, ungur rithöfundur.
Jafnframt var hann í tengslum við Mathilde Mann, sem á næstu árum þýddi
eftir hann nokkrar smásögur, og síðar þýddi hún Ströndina á þýsku. Sœlir
eru einfaldir var þýdd strax eftir útkomu hennar á dönsku og síðan héldu
bækur Gunnars áfram að koma út á þriðja áratugnum í Þýskalandi þar sem
hann var einhver söluhæsti rithöfundur á bókamarkaðinum.
Einn mikilvægasti tengiliðurinn á Þýskalandi fyrir Gunnar, sem og aðra
skandínaviska rithöfunda og listamenn, var norræna félagið, Die nordische
Gesellschaft í Lubeck, sem stofnað var 1921. Tilgangur þess var efling
menningartengsla milli Þýskalands og Norðurlanda. A vegum þess fór
Gunnar í upplestrarferðir og tók þátt í menningarhátíðum á þriðja áratugn-
um.
Nú er af því að segja að fljótlega eftir valdatöku nasista 1933 var þetta fé-
lag gert að hálfopinberri áróðursmiðstöð fyrir Norðurlönd og starfsemi
þess margelfd. Tengslin við flokkinn voru undirstrikuð með því að enginn
annar en Alfred Rosenberg gerðist verndari - Schirmherr - félagsins. Um
leið var verksvið félagsins víkkað. Því var ætlað að efla norrænan anda,
norræna hugsun í Þýskalandi og í því skyni stofnaðar skrifstofur og útibú
suður um allt Þýskaland. Og ekki bara þar. Eftir að Þjóðverjar tóku að
vinna Evrópu undir vald sitt voru þeir naumast fyrr búnir að leggja undir
sig landsvæði en þeir settu þar á stofn skrifstofu frá Die nordische Gesell-
schaft. Þannig var sett upp norræn skrifstofa í Prag og austur um Rússland
á stríðsárunum.
Die nordische Gesellschaft hafði gefið út yfirlætislaust tímarit til kynn-
415