Tímarit Máls og menningar - 01.12.1988, Blaðsíða 76
Tímarit Máls og menningar
Ýmsir fræðimenn halda því reyndar fram, að skáldskapartexti öðlist fyrst
merkingu með lesandanum. Verkið opnar fyrir ýmsa túlkunarmöguleika
og tékkinn Jan Skacel hefur komist svo að orði:
Skáldin yrkja ekki ljóðin
Ljóðin eru einhvers staðar til
Þau hafa verið það lengi, lengi
Og skáldið finnur ljóðið.
Og síðan fá lesendur tækifæri til að finna það sem skáldin fundu.
Eg nefni þetta til að benda á að hluti af danskri bókmenntaumræðu snýst
um það, hvar finna megi sannleikann um verkið eða sannleika verksins: er
hann í verkinu sjálfu, hjá höfundinum eða fyrir utan verkið í þeim veru-
leika sem verkið er sprottið úr og fjallar um? Það ætti að vera auðvelt að
flokka flestar bókmenntakenningar í samræmi við þær áherslur sem þær
hafa. Það kemur þrennt til greina: höfundurinn - verkið - lesandinn. Ég
ætla ekki að fjalla um þetta heldur nota tækifærið til að koma inn á aðra
umræðu: stöðugt vaxandi andstöðu við kenningar. Þessi andstaða er ekki
komin frá neinum ákveðnum hópi manna eða skóla, heldur eru fylgis-
mennirnir bæði úr röðum rithöfunda, bókmenntafræðinga og saklausra les-
enda. Ungt danskt ljóðskáld, Juliana Preisler, hefur til að mynda skrifað
fjölda greina bæði í blöð og tímarit, þar sem hún færir rök fyrir því að nú
sé kominn tími til að hætta umræðunni um merkingu bókmenntaverka.
Stop doing theory! Þið kannist e.t.v. við þessar setningar: A poem should
not mean but be, og Poetry communicates before it is understood. Af
hverju ekki að leyfa bókmenntunum að tala fyrir sig, þurfum við einhverja
bókmenntafræði til að útskýra fyrir okkur hvernig við eigum að skilja bók-
menntirnar? Belgísk-bandaríski heimspekingurinn Paul de Man skrifaði
bók sem nefndist Resistance to Theory, þar sem hann reynir að gera grein
fyrir orsökum kenningafælninnar.
Um bókmenntir er oft sagt, að þær séu veruleikaflótti. Við getum annað-
hvort flúið úr raunveruleikanum inn í bókmenntirnar, eða úr bókmenntun-
um inn í raunveruleikann. Þær bókmenntir sem við flýjum inn í eru þær
hugljúfu ásamt gamanleikritum, sem byggja á vellíðunarlögmálinu. Og þær
bókmenntir sem við flýjum úr eru harmleikir, háðsádeilur og skopstæling-
ar, sem byggjast á veruleikalögmálinu.
Það sama gildir einnig um bókmenntafræðingana: annaðhvort flýja þeir
úr praksís inn í teoríu, af því að það getur verið þægilegra: það er auðvitað
miklu þægilegra að sitja með nokkur líkön en allar heimsbókmenntirnar.
Eða þá þeir flýja texta, sem þeim finnast vera ómerkilegir og óspennandi,
466