Tímarit Máls og menningar - 01.12.1988, Blaðsíða 8
Tímarit Máls og menningar
hann kemur fram með þessi: „Sá skilningur eldri fræðimanna að völvan flytji
spá sína að beiðni Oðins frammi fyrir goðum og mönnum er rökréttur og í
góðu samnemi við textann í heild. “ (386-leturbr. mín, gs) Þessi röksemdafærsla
minnir á „af því bara“ ástæður barna auk þess sem „heildartextinn“ er til kom-
inn með samsuðu óskyldra handrita. Það er ekki hægt að segja að eitthvað sé
rangt á þeim forsendum að eldri fræðimenn hafi haldið öðru fram.
EMJ ræðir nokkuð ýmis rök fyrir því að eddukvæði hafi ekki varðveist með
sama hætti og annar höfundarlaus kveðskapur á munnlegu stigi. Það er óþarfi
að fara nákvæmlega út í þá umræðu en hér nægir að benda á að það er ótraust
að halda einhverju fram um höfunda og skáld á bak við eddukvæðin og vísa í
heimildir um dróttkvæði því til stuðnings eins og EMJ gerir. Hér er um ólíkar
kveðskapargreinar að ræða og um varðveislu þeirra gilda ólík lögmál. Það þýð-
ir ekki heldur að tala eins og það sé alkunna að „skáldin“ (þá væntanlega drótt-
kvæðaskáldin því að önnur skáld þekkjum við ekki) hafi vegna íþróttar sinnar
og hlutverks í samfélaginu þurft að læra eddukvæði og þannig komið í veg fyrir
að þau hafi aflagast og breyst í önnur. (sbr. 384) Um þetta er ekkert vitað auk
þess sem kenningar um munnlega orðlist ganga ekki út frá því að eitthvað upp-
runalegt aflagist og breytist þannig í eitthvað annað.
Það er að vísu mjög sennilegt að til hafi verið sérstakir kvæðamenn sem voru
vel að sér í fornum fræðum en við getum alls ekki talað um þá í sömu andránni
og hirðskáldin sem fluttu konungum dróttkvæðar drápur. Hér er um tvær
ólíkar listgreinar að ræða, jafnvel þó að EMJ sé með tilburði til að blanda þeim
saman og gera lítið úr því sem skilur þær að. Bragarhættir, orðfæri og yrkisefni
eru gjörólík og einnig má benda á að í Snorra-Eddu er þessu haldið vel að-
greindu með því að leggja goðunum aldrei annan kveðskap í munn en undir
edduháttum. Nafngreindir dauðlegir höfundar eru jafnan bornir fyrir drótt-
kvæðunum og ástæða er til að ætla að einmitt vegna þess og hins flókna bragar-
háttar hafi gilt önnur lögmál um munnlega varðveislu dróttkvæða en eddu-
kvæða.
I lokin úthúðar EMJ útgefanda fyrir að koma með nýja og sérlega heimsku-
lega túlkun að því er honum finnst á Völuspá. Hér er líklega komið að því sem
EMJ kallar óskiljanlegt nema menn hafi „. . . fylgst vandlega með ýmsum
krókaleiðum umræðna á Islandi síðustu ár . . .“ (382) en hann telur það mikinn
ókost útgáfunnar að hún skuli ræða við samtíma sinn. Þessi nýja túlkun sem
EMJ segist hafa fundið í útgáfunni felst í því að „ballræðismennirnir", þ.e.
karlmenn, eigi „sök á spillingunni, meðan konurnar elska friðinn platónskri
ást“ (388). Síðan lætur EMJ drýgindalega og segir að Gullveig og Heiður eigi
upptökin og verði að „teljast kvenkyns, a.m.k. meðan einhver arkeo-gyneko-
logia hefur ekki leitt eitthvað annað í ljós . . .“ Hér er EMJ farinn að snúast um
sjálfan sig því að í útgáfunni stendur:
I heimi goðanna ríkir sæla allsnægtanna þar til þursameyjarnar þrjár koma.
398