Tímarit Máls og menningar - 01.06.1992, Qupperneq 80
Starfsemi sjónvarpsins hefur ekki tekið
mið af þeirri einföldu staðreynd að grund-
völlur íslensks sjónvarps er íslensk dag-
skrá, að það hlýtur að vera ófrávíkjanleg
krafa að meira en helmingur dagskrárefnis
sé íslenskur, fyrir utan fréttir og auglýsing-
ar. Miðað við þessar aðstæður má heita
undravert, hverju starfsmenn sjónvarpsins
hafa þó fengið áorkað. Og ég veit vel, og
við vitum það öll, að starfsmenn sjónvarps-
ins sem vinna að íslenskri dagskrárgerð
brenna í skinninu að fá að sýna hvað hægt
er að gera í íslenskri dagskrárgerð. Að hluta
til er þetta innanhússvandi, spuming um
skiptingu tekna sjónvarpsins. En megin-
vandinn er þó sú staðreynd að eigin tekjur
sjónvarpsins geta aldrei staðið undir kostn-
aði við slíka dagskrárgerð. Þar verður að
koma beinn fjárstuðningur úr ríkissjóði,
með einum eða öðrum hætti. Ef sjónvarpið
fengi þannig t.d. um 500 milljónir, þá
myndi það breyta miklu. Og það þýðir ekk-
ert að segja mér að 500 milljónir séu mikið
fé í þessu skyni. Við þurfum ekki annað en
að líta í kringum okkur þessa daga og sjá
hverju verið er að skipta á milli manna
svona til smáglaðnings að gera sér daga-
mun. Og við vitum vel að ein meðal kvik-
mynd kostar um 100 milljónir.
Það verður að hætta að pína Ríkisútvarpið
í samkeppni um auglýsingatekjur við lág-
menningarstöðvar. En jafnvel í slíkri stöðu,
þá má Ríkisútvarpið aldrei elta keppinauta
sína út í svað lágkúrunnar eins og þegar
sjónvarpið svaraði endurvarpi Stöðvar 2 á
stríðsáróðri CNN með sams konar endur-
varpi frá SKY.
Niðurstaða þessa spjalls er hin sama og
upphafíð: Ríkisútvarp, opinbert útvarp, er
enn sú hugsjón að efla menningu, menntun,
víðsýni og innsæi þjóðar og stuðla að sam-
kennd hennar. Ríkisútvarpið er enn leikhús
Tálknfirðinga, hljómleikasalurinn á Kópa-
skeri, fyrirlestrarsalurinn í Árneshreppi.
Ríkisútvarpið er enn eini fjölmiðillinn sem
nær til allra landsmanna umsvifalaust. Ef
hin upprunalega hugsjón um ríkisútvarp á
Islandi á að rætast, verður afstaða íslenskra
stjórnmálamanna til gildis menntunar og
menningar að gerbreytast í reynd, í athöfn,
ekki orði, í efndum en ekki fyrirheitum. Og
ég vil ljúka þessum orðum með því að beina
einni spurningu til þeirra stjórnmálamanna
sem telja að íslensk menning sé of kostnað-
arsöm. Hún er svona: ef menntun og menn-
ing er of dýr — eigum við þá að einbeita
okkur að fáfræði og heimsku?
Að stofni til erindi, flutt á ráðstefnu um ríkis-
útvarp á vegum Starfsmannasamtaka Ríkisút-
varpsins 31. janúar 1992.
78
TMM 1992:2