Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Qupperneq 8
8
Spurt er hvernig fyrri tíma hugmyndir annarra um Ísland kallast á við
þær ímyndir af Íslandi sem birtast í myndum frá bókasýningunni og eiga
uppruna sinn bæði hjá Íslendingum og öðrum. Hvaða hugmyndir um tíma
og rými eru ráðandi í frásögnunum? Með þessar lykilspurningar að leiðar-
ljósi og með félagslega mótun sjálfsmyndar í brennidepli, leitast ég við
að varpa ljósi á íslenska menningarsögu.2 Með því að nálgast viðfangs-
efnið með aðferðum ímyndafræðinnar, sem hefur rannsakað staðalímyndir
þjóða, er hægt að bera saman grafískar (sjónrænar) myndir og myndir sem
dregnar eru með tungumálinu.3 Mótun hugmynda um þjóðarímynd og
umræður um endurnýjun þeirra fara fram í samspili við þessi myndform
og oft er umræðan samofin myndunum. Meginviðfangsefni ímyndafræð-
innar eru sjálfsmyndir (e. auto-images), sem lýsa sýn tiltekins samfélags
á sjálft sig og þá þætti sem samfélagið vill samsama sig með, og gagn-
ímyndir (e. hetero-images), en þar er átt við myndir sem aðrir hafa mótað.
Gagnímyndina má því skilgreina sem myndina af „hinum“. Þetta eru tvö
lykilhugtök þegar rýnt er í myndir frá bókasýningunni, jafnt fréttapistla,
kynningarefni og blaðagreinar, sem allt eru dæmi um samsetta umfjöllun
sem oft inniheldur bæði sjálfsmyndir og gagnímyndir.
Myndirnar sem ég fjalla um og rýni í eru úr blaðagreinum frá því í
október 2011 sem allar fjalla um íslenska skálann og íslenskar bókmenntir
ásamt myndum frá heimasíðunni www.sagenhaftes-island.is. Textar, einkum
af íslenskri og enskri útgáfu heimasíðunnar, þar sem m.a. er fjallað um
mótun nýrrar ímyndar í kjölfar kreppunnar, veita innsýn í þau markmið
sem hugsanlega liggja að baki kynningu Íslands á sjálfu sér. Með saman-
burðargreiningu á þessum lýsingum og myndum frá heimasíðunni get ég
borið viðtökur og umfjöllun í Þýskalandi saman við íslensku sjálfsmynd-
ina og þær hugmyndir sem henni liggja að baki. Ég mun jafnframt skoða
áhugaverða lagskiptingu rýmisins sem myndar umgerð um sjálfa kynningu
2 Þessi áhersla á fyrst og fremst rætur að rekja til samanburðarbókmennta, sér í
lagi ímyndafræði, sem einkum hefur komið fram í skrifum Sumarliða Ísleifssonar
sagnfræðings og í alþjóðlega rannsóknarverkefninu INOR. Sjá: http://www.inor.
is/index.php?m=B&id=M_SUMARLIDI [sótt 20. janúar 2012].
3 Sjá nánar W.J.T. Mitchell, Iconology. Text, image, ideology, Chicago: The University
of Chicago Press, 1986. Hann gerir réttmætan og nauðsynlegan greinarmun á
huglægum, yrtum/myndhverfðum og grafískum myndum, en bendir jafnframt á
mikilvægar skaranir myndgerðanna.
ANN-SOFIE NIELSEN GREMAUD