Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Page 124
124
Lengi virðist sem Djúpifjörður sé áfram heimkynni Páls en hann frest-
ar því þó alltaf að heimsækja heimabyggðina. Þegar loksins verður af því
kemur í ljós að hún hefur breyst líka; honum finnst að fólkið á staðnum og
ættingjar hans komi fram við hann sem ókunnugan mann, jafnvel grun-
samlegan. Honum líður eins og hann eigi hvergi heima nema stundum
þegar hann er einn úti í náttúrunni, enda leggur hann á flótta frá borginni
og nútímanum og út í náttúruna eins oft og hann getur til að „njóta næðis
og einveru, gleyma sjálfum sér og gefa sig á vald fegurð landsins! / Gleyma?
Já. Reyna það að minnsta kosti. Reyna að gleyma“ (DS 87). En mótsögnin
sem felst í því að skrifa um þrána eftir gleymsku gerir þessa þrá íróníska,
eins og við eigum eftir að sjá.
En jafnvel landslagið getur ekki veitt Páli grið til lengdar. Á Djúpafirði
sem og annars staðar í sveitinni er allt „orðið eins og á hverfandi hveli“
(DS 580), svo vitnað sé til orða verðandi eiginkonu Páls. Á Þingvöllum,
sem Páll upplifir sem helgan stað, finnur hann í fyrsta skipti „áþreifanlega“
hvað það þýðir að búa í hernumdu landi, þegar amerískir hermenn og
íslenskar stúlkur sem fylgja þeim fleygja „smápeningum í djúpt silfurtært
vatn [Nikulásar]gjárinnar, sum skvaldrandi á ensku, önnur að flissa og
hvía“ (SH 224).26 Paul Connerton hefur lýst því hvernig návist hermanna
eða ummerki þeirra á stað sem geymir staðarminni, gerir það að verkum
að þeir sem hafa verið hernumdir finna verulega fyrir lítillækkun og niður-
lægingu, þar sem návist hermanna einmitt á þessum stað gerir ógleyman-
lega þessa upplifun og þær tilfinningar sem fylgja henni.27 Að íslensk-
ar stelpur skuli fylgja hermönnunum, og að þau tali ensku og flissi og
hvíi, táknar því eins konar helgispjöll. En Þingvellir hafa ekki aðeins verið
hernumdir af hermönnum heldur líka af nútímanum sem birtist í mynd
smápeningsins sem kastað er í „silfurtært vatnið“. Páll leggur því aftur á
flótta, í þetta skipti inn í Þingvallasveit, en þar virðist honum sem landið
sjálft og saga þess snúi baki við honum, þegar það spyr hann: „Hvað viltu
26 Sagnfræðingurinn Guðmundur Hálfdanarson tilgreinir Þingvelli sem íslenskan
„lieu de mémoire“, eða stað þar sem maður upplifir sig sem hluta af stærri þjóð
í gegnum sameiginlegar sögulegar minningar: „Þingvellir: an Icelandic lieu de
mémoire“, History and Memory 12/2000, bls. 4–29 – en það var franski sagnfræðing-
urinn Pierre Nora sem fyrst fjallaði um lieux de mémoire. Sjá Pierre Nora, Realms of
memory: The construction of the French past, [titill á frummáli er Les lieux de mémoire],
1. útg. 1984–1992, þýtt úr frönsku af Arthur Goldhammer, 3 bindi, New York:
Columbia University Press, 1997.
27 Connerton talar um „a carrier of place memory“, How Modernity Forgets, bls. 35 og
24.
dAiSy NeijmANN