Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Page 155
155
Péturs um sjálfan sig og stöðu sína og hlutverk í samfélaginu og sjálfu
lífinu birtist ekki aðeins í flótta hans frá firringunni og örvæntingarfullri
leit hans að upprunanum á bernskuslóðunum í sveitinni, heldur er hún
undirstrikuð á áhrifamikinn hátt í frásagnarhættinum með því að sífellt
er skipt um nafnliði og fornöfn sem vísa til aðalpersónunnar. Richardson
telur að þetta sé einn af megineiginleikum fjölradda frásagna, það er að
viðfangsefni eða þema frásagnar innar taki formlega á sig mynd í sjálfri
frásagnartækninni og sé endurskrifað og undirstrikað með frásagnarhætt-
inum.25 Lesandinn upplifir ráðvillu Péturs ekki aðeins í efnistökum heldur
beinlínis í því hvernig sögu hans er miðlað.
Richardson nefnir sem dæmi bók eftir franska rithöfundinn Nathalie
Sarraute, Tu ne t’aimes pas (1989), þar sem ekki er alltaf ljóst til hvers
fornöfnin ég og þú vísa og bókin hefst á eins konar samræðum ólíkra
radda innan sama sjálfsins. Einnig nefnir Richardson smásögu eftir Susan
Sontag, „Unguided Tour“ í safninu I, etcetera (1978), sem er samtal milli
I og you. Jakobína ræðir beinlínis um ólík persónufornöfn og merkingu
þeirra í samhengislausum köflum sem ramma inn Lifandi vatnið – – – þar
sem persóna og höfundur ræðast við − og að sama skapi er bent á að ég get
aðeins verið ég og þú verið þú ef sjónarhorn og viðmið eru fest niður:
Glutraðu mér ekki saman við aðrar persónur, ég bið þig, haltu mér
sér með mína kosti, mína galla, mig. Mundu að ég er aðalpersóna:
ég. Verk þitt stendur og fellur með mér. Hvað værir þú án mín?
Hvað værir þú án mín? Hvers vegna vilt þú vera fyrsta persóna?
Fyrsta persóna er ég. [...] Þú ert þú. Þú ert önnur persóna. (9)
Um leið og skipt er um sjónarhorn eða viðmið breytist ég í þig, hann, Pétur
eða eitthvað annað.
Í greininni „Identity/alterity“ heldur Fludernik því fram að málefni
er varða samband sjálfsmyndar (e. identity) og annarleika (e. alterity) −
þess sem einstaklingur telur sig vera og þess sem hann er ekki − séu hluti
af öllum frásögnum. Hún bendir á að sjálfsmynd sem birtist í frásögn
sé ein af þeim mörgu sjálfsmyndum sem einstaklingur hefur og skapar
sér sjálfur í sínum hlutverkum í samfélaginu, t.d. sem foreldri, kennari,
karlmaður o.s.frv. Engin af þessum sjálfs myndum er þó hin eina sanna,
25 Brian Richardson, Unnatural Voices, bls. 67.
„FORM OG STÍLL öRÐUGT VIÐFANGS“