Skírnir - 01.04.1994, Blaðsíða 57
SKÍRNIR
FORNFRÆÐI EGILS SÖGU
51
Óðins). Hamskipti voru ein af íþróttum Óðins: hann „skipti lit-
um og líkjum á hverja lund er hann vildi“ (IF 1941, 17).
gerningavebur?
Þótt þess sé hvergi getið berum orðum að Egill væri fjölkunnug-
ur, að undanskilinni kunnustu í rúnum, þá er gefið í skyn að svo
hafi verið. Hann er tólf vetra að aldri þegar Skalla-Grímur hamast
að pilti og hefði orðið honum að aldurtila, ef Egill hefði ekki not-
ið fóstru sinnar, ambáttar Skalla-Gríms, sem var fjölkunnug
mjög; hún fórnar sér fyrir hann (101). Sennilegt er að Þorgerður
brák hafi kennt Agli eitthvað í göldrum og fjölkynngi, enda hefur
það ekki verið út í bláinn að Skalla-Grímur velur fjölkunnuga
konu að fóstru handa syni sínum.14 Slíkur grunur stafar einkum af
tilhögun Eglu.
Þættinum af knattleik Egils og dauða Þorgerðar fóstru hans er
fleygað inn í frásögn af Þórólfi Skalla-Grímssyni heima á Borg
eftir fyrstu utanför hans. Nú vill Egill fara með honum til Nor-
egs, en Þórólfur neitar að taka hann utan með sér. Egill hefur þá í
hótunum og gefur í skyn að hvorugur þeirra fari. „Um nóttina
eftir gerði á æðiveður, útsynning.“ I náttmyrkri fer Egill til skips,
hjó í sundur festar, og rak þá út skipið á fjörðinn (102-103). Lýs-
ingin á athöfnum Egils er hin raunsæjasta, en þó er erfitt að losna
við þá hugmynd að með þvílíkri fjölkynngi sem hann kann að
hafa numið af fóstru sinni hafi hann hrundið af stað því æðiveðri
sem hrakti skipið yfir fjörðinn. I þessu sambandi er vert að minn-
ast þess að skip Þórólfs lá einmitt í Brákarsundi þar sem Skalla-
Grímur varð fjölkunnugri fóstru skáldins að aldurtila.
14 Náms í göldrum og fjölkynngi er helst getið ef nemandi þurfti að sækja sér
þekkingar að heiman, rétt eins og Gunnhildur konungamóðir gerði forðum,
samkvæmt Haralds sögu kins hárfagra (ÍF 1941, 135-36). Önnur rit geta
einnig um galdranám: Þorleifs þáttur jarlaskálds (IF 1956, 216), Örvar-Odds
saga (1892, 281), Flateyjarbók (IV: 9-10), Eyrbyggja (ÍF 1935, 28-29), Bárðar
saga (ÍF 1991, 103), Þorsteins þáttur uxafóts (sama rit, 349). Sjá einnig skýring-
ar mínar í Völuspá (1994, 31-37).