Skírnir - 01.04.1994, Blaðsíða 163
SKÍRNIR
ARFLEIFÐ UPPLÝSINGARINNAR
157
sé að skapa heimilisbókasöfn um allt land, þar sem heima eigi
skemmtandi og fræðandi bækur. Þessi skírskotun til skemmtandi
og fræðandi bóka speglar raunar svipuð viðhorf og birtast í 1.
grein laga Landsuppfræðingarfélagsins, sem vitnað var til hér að
framan, en þar segir, að félagið eigi að annast „útgáfu góðra, út-
valinna og gamansamra rita, til upplýsingar, fróðleiks og
skemmtunar". Fram kemur í því, sem Jónas segir um val á ein-
stökum bókum til útgáfu, að hann var á þessu skeiði sama sinnis
og á yngri árum um menntagildi bóka.44 Þess má svo geta, að árið
1960 ritaði Jónas, þá kominn á áttræðisaldur, grein, þar sem fram
kom hvatning til þess, að Menningarsjóður léti þýða og gefa út á
íslenzku valda hluta af veraldarsögu Wills Durants, en það verk
taldi Jónas afbragðs fræðslurit.45 Þessari hugmynd var síðar
hrundið í framkvæmd.
V. Tímabilið frá um 1940 til samtímans
Hér er látið nægja að stikla á stóru í umfjöllun um þróun
fræðsluritaútgáfu á síðustu áratugum. Það hefur haldizt í hendur
við hinar miklu breytingar, sem orðið hafa á íslenzku þjóðfélagi
síðan á öndverðri þessari öld, að almenningur hefur átt þess
miklu meiri kost en áður að afla sér fræðsiu í skóla, hvort sem um
er að ræða reglubundið skólahald eða námskeið ýmiss konar.
Hliðstæð þróun hefur átt sér stað víða um lönd. Tilkoma útvarps
og sjónvarps hefur og breytt miklu að þessu leyti. Má í því sam-
bandi minna á, að bæði í útvarpi og sjónvarpi hefur verið haldið
uppi skipulegri kennslu fyrir almenning. Fólk, sem vildi fræðast
um ýmis svið, hefur því ekki þurft að treysta eins mikið á sjálfs-
nám, byggt á lestri fræðslurita, og áður var. Utgáfa fræðslurita
hefur beinzt meira en fyrr í þá átt að veita fólki þekkingu til við-
bótar við skólalærdóm. Enn fremur er á það að líta, að bætt
44 Jónas Jónsson: „Hin nýja bókaútgáfa." Andvari, 65. ár. Rv. 1940, s. 40-54.
45 Jónas Jónsson: „Menntamálaráð og menningarsjóður." Andvari, 88. ár (Nýr
flokkur, 2. ár), 1. hefti. Rv. 1960, s. 76—78.