Skírnir - 01.04.1994, Blaðsíða 250
244
BJARNI GUÐNASON
SKÍRNIR
hversu fjölskrúðugar frásagnir fara af Ragnari loðbrók og sonum hans í
íslenskum heimildum, og stendur það óefað í sambandi við þá staðreynd,
að margar voldugustu höfðingjaættir þjóðveldisaldar töldu sig frá Ragn-
ari komnar. Ættvísin beindi þegar í upphafi söguritunar athyglinni að
Ragnari. Kunn er t.d. frásögn Njálu, þegar þeir Bjarni Brodd-Helgason
og Flosi Þórðarson reyndu að fá Eyjólf Bölverksson til að færa fram
vörn á alþingi eftir Njálsbrennu. Hafði Bjarni uppi fagurmæli við Eyjólf:
„Þat er ekki svá, því at þú hefir marga þá hluti til, at engi er þér meiri
maðr hér á þinginu. Þat er fyrst, at þú ert ættaðr svá vel sem allir eru,
þeir er komnir eru frá Ragnari loðbrók.“ Ragnar loðbrók var Danakon-
ungur af Skjöldungakyni, sem Oddaverjar voru frá komnir, en einnig ætt
Ynglinga og Breiðfirðinga að sögn Ara fróða. Frá þessum fornu lær-
dómsættum barst Ragnar inn í langfeðgatöl íslenskra höfðingja.
Líklegt má telja, að Skjöldungasaga, sem greinir frá langfeðgum
Danakonunga fyrir byggð Islands, hafi verið skrifuð um 1200, og þar sé
saga Ragnars loðbrókar fyrst sett á skrá í íslenskum heimildum, en hún
er þar aðeins einn liður í ættarsögu Danakonunga. Ætla má, að Skjöld-
ungasaga sé formóðir sjálfstæðrar Ragnars sögu, og má gera ráð fyrir af
heimildum, að enn séu til a.m.k. þrjár gerðir af sögunni. Sú heila, sem er
auðvitað aðalfulltrúi sögunnar, er í Ny kgl. saml. 1824 b,4to, sem tengd
er Völsungasögu með Áslaugu Sigurðardóttur Fáfnisbana. Af hinum
gerðunum er það að segja, að önnur er varðveitt í AM 147, 4to, sem er
torlesinn uppskafningur og loks eru leifar af þriðju gerðinni í Ragnars-
sona þætti í Hauksbók. Enn er þess að geta, að Ragnars saga Saxa er að
öllum líkindum að stórum hluta frá íslendingum komin, og loks þarf að
hafa hliðsjón af Skjöldungasögu, sem segir langt frá Ragnari.
Rannsókn McTurks er fólgin í því að gera grein fyrir öllum þessum
ritum og rittengslum, auk þess sem hann víkur að fjölbreytilegum kveð-
skap og hvers kyns sögnum um Ragnar, sonu hans og Áslaugu og
Krákuævintýrið á Spangarheiði (53 o.áfr.). Hér má fljóta með, að ég
skrifaði endur fyrir löngu stutta grein í afmælisrit Einars Ólafs Sveins-
sonar, sem nefndist „Gerðir og ritþróun Ragnars sögu loðbrókar"
(Einarsbók, Rvík 1969), þar sem skyldleiki breyttra frásagna af Ragnari
er saman borinn og gerð grein fyrir stöðu þeirra í ritþróuninni. Okkur
ber ekki mikið á milli í almennum skilningi á ritþróun sögunnar, en
rannsóknir McTurks eru miklu víðtækari og djúpstæðari, einkum hvað
varðar sjálfa sagnaþróunina.
Rit McTurks greinist í þrjá meginkafla: I. Ragnar og Loðbrók, þar
sem McTurk kannar söguleg sannindi (bls.1-50). II. Hetjusnið (The her-
oic biographical pattern), þar sem höfundur leggur mælikvarða hetjunnar
á annars vegar æviferil Ragnars og Áslaugar og hins vegar á ævi Ragnars-
sona (bls. 51-148). III. Ragnar og Aslaug í sagnadönsum og sögnum, þar
sem hugað er að sagnþróuninni, svo sem ormadrápi Ragnars í kvæðum,