Skírnir - 01.04.1999, Blaðsíða 78
72
ÓSKAR BJARNASON
SKÍRNIR
„Ofurfrömun" (Uberfremdung) var slagorð svartsýnismanna
gegn hinum þrúgandi erlendu menningaráhrifum. Gustav Neckel
notar það þegar í upphafi inngangs síns að úrvali Thule-þýðinga
sem út komu árið 1924. Ritið, sem ber nafnið Germanskt eðli í
fornöld, var einkum ætlað yngri kynslóðinni.68 Fróðlegt er að
bera saman inngangsrit Felix Niedners frá 1913 (endurútgefið
1920) og inngang Neckels ellefu árum, einni heimsstyrjöld og
stjórnarbyltingu síðar. Báðir bera merki kynþáttahyggju.
Niedner skrifar fremur í þjóðernisrómantískum stíl nítjándu ald-
ar, leggur áherslu á hvernig andi og dulrænn „kraftur“ norræns
kyns kemur fram í einstaklingnum, hetjunni, en rekur ekki áróð-
ur fyrir kynþáttalegri menningarhreinsun, hvað þá mannkynbót-
um. Neckel er í öðrum og nýstárlegri ham en inngangur hans er í
anda róttækari kynþáttakenninga sem byggðust á náttúruvísind-
um.69 Orðið „germani" eða „germanskur“ birtist hvorki meira né
minna en 33 sinnum á fjórum síðum inngangsins og Norðmenn
og Islendingar fá ekki að heita annað en „norskir og íslenskir
germanir".70 Neckel sker upp herör gegn „kynþáttarspillandi
menningaráhrifum". Hann heldur því fram að germanir séu eini
kynþáttur Evrópu sem hægt sé að kynnast í „upprunalegu
ástandi"; Rómverjar, Grikkir, slavar og keltar séu þegar orðnir
fórnarlömb „ofurfrömunar" er þeir stíga fram á svið sögunnar. í
tímans rás hafi svo menning germana „ofurframast“ af grískum,
rómverskum og austrænum áhrifum (s. i). Neckel efast ekki um
að landar sínir finni til „blóðbandanna“ við forna germani, að
Sigurður Fáfnisbani, Guðrún (Gjúkadóttir?), Gunnar á Hlíðar-
enda og Gísli Súrsson standi þeim nær en „Akkiles sem dregur lík
óvinar síns umhverfis borgarmúra Tróju eða Alþea sem ber í
jörðina til að særa undirheimana til hefndar". Að sjálfsögðu eru
68 Germanisches Wesen in der Friihzeit. Eine Auswahl aus Thule mit Einfiihrun-
gen. Sammlung Diederichs 5. Gustav Neckel ritstýrði. Jena 1924, s. 1.
69 Þekktasti fulltrúi hinnar nýju kynþáttahyggju er án efa Hans F. K. Gúnther
en hann vísaði einmitt í Neckel er hann tók dæmi úr norrænni fortíð kenning-
um sínum til stuðnings. Hans F. K. Gunther: Rassenkunde des deutschen
Volkes. Múnchen 1933, s. 384, 458, 474. Fræði „Rassen-Gúnthers", eins og
hann var nefndur, hlutu sess kennisetninga í Þriðja ríkinu.
70 Neckel: Germanisches Wesen, s. iv.