Skírnir - 01.04.1999, Blaðsíða 179
SKÍRNIR
ÍSLENSK ÞJÓÐERNISVITUND
173
skömmu eftir aldamótin 1300, enda var þá skammt um liðið, síð-
an þjóðin missti frelsi sitt, og hafa sárindin af þeim atburði ekki
verið með öllu horfin.“ Og í lokin finnst honum að endurheimt
sjálfstæðis hljóti að hafa verið valkostur í hugum 14. aldar manna:
„Má því segja, að sú leið, sem Islendingar fóru 1319, hafi verið sú
skásta, sem völ var á, en ljóst hlaut ýmsum þeirra að vera, að end-
urheimt frelsis reyndist örðugri en glötun þess.“66
Efasemdir um þessa túlkun á kröfunni um innlenda embættis-
menn koma held ég fyrst fram í bók eftir Björn Þorsteinsson árið
1978. Hann segir:
Hörðustu og langæjustu deilur íslendinga og konungsvaldsins snerust
um þjóðerni embættismanna. Þær voru ekki sprottnar af þjóðernishroka,
íslendingar voru ekki andvígir útlendingum í sjálfu sér, heldur var hér
um hreint hagsmunamál að ræða. Erlendir umboðsmenn tóku spón úr
aski íslenska lágaðalsins sem leit á íslensku umboðin sem eign sína, og
þetta var verðmæt eign sem gaf mikið af sér.67
Þessi skýring orkar í fljótu bragði sannfærandi; fjölskyldur þeirra
manna sem höfðu gefið konungi goðorð sín litu á sýslumanns-
embættin sem framhald goðorðanna og vildu fá þau í staðinn.
Samt er ég ekki viss um að þetta sé einhlít skýring. Eg hef áður
bent á að samþykkt sem lögréttumenn og aðrir bændur í Árnes-
þingi gerðu á Áshildarmýri á Skeiðum árið 1496 beri einna
gleggst merki þess að vera sprottin af trú á að það væri hótinu
skárra að hafa innlenda konungsumboðsmenn en útlenda.68 Sam-
þykktin byrjar á upprifjun Gamla sáttmála eins og hann var sam-
þykktur við hyllingu Hákonar háleggs 1302, með ákvæðinu um
innlenda lögmenn og sýslumenn „af þeirra ættum sem goðorðin
hafa uppgefið að fornu“. Síðan segja fundarmenn að þeim þyki
þessi sáttmáli ekki vera haldinn sem skyldi, og því haldi þeir sam-
komu sína að Áshildarmýri. Svo fara þeir að gera samþykktir og
66 Jón Jóhannesson: Islendinga saga II, 226, 301.
67 Björn Þorsteinsson: Islensk miðaldasaga (Reykjavík, Sögufélag, 1978), 286-87.
68 Gunnar Karlsson: „Söguleg merking Áshildarmýrarsamþykktar." Árnesingur
IV (1996), 71-79.