Skírnir - 01.04.1999, Blaðsíða 165
SKÍRNIR
ÍSLENSK ÞJÓÐERNISVITUND
159
lútherskur. Hvergi í þessari sögu er minnst á að menn vinni sér til
helgi eða óhelgi með kaþólskri eða lútherskri trú sinni.
Jón Egilsson hafði nokkra ástæðu til að standa með kaþólska
flokknum í siðaskiptunum. Afi hans, séra Einar Ólafsson, hafði
verið fylgismaður Ögmundar biskups Pálssonar, og móðir hans
lá níu vetra gömul á fótum Ögmundar á Hjalla í Ölfusi, þegar
danskir siðskiptamenn sóttu hann þangað árið 1540 (73). Mér
heyrist líka hjarta Jóns slá talsvert mikið á kaþólska vísu. Hann
segir meðal annars dæmigerða kaþólska helgisögu sem gerðist í
Skálholti á dögum Stefáns biskups Jónssonar, um aldamótin
1500:
[...] maður einn, er Sigmundur hét, gjörði það af metnað, háðúng og
gemsi sínu, að hann stakk einn kross, hér var í Skálholti, og sagðist
skyldi reyna, hvort það tré hefði meira uppá sig en annað; svo skeði, að
krossinum blæddi, þar hann hafði stúngið; hann var settur inn, og fékk
refsíngar. Frá þessu sagði síra Einar mér, hann var hér þá djákni í Skál-
holti, og þennan mann kölluðu þeir Sigmund kross-stíng. (47)
En samúðin með andófi Islendinga gegn siðaskiptunum líður
ekki undir lok með Jóni Egilssyni. Kunnugt er hvernig orðstír
Jóns Arasonar biskups var haldið uppi, líklega svo að segja óslit-
ið. Of langt yrði að rekja alla vitnisburði þess hér, en nefna má að
nafni hans, séra Jón Arason í Vatnsfirði, lútherskur prestur sem
var ekki fæddur fyrr en 1606, orti um Jón biskup:
Blessaður sé hann biskup Jón
bæði lífs og dauður,
hann var þarfur herrans þjón
þó heiminum virtist snauður.41
Hjá séra Jóni Halldórssyni í Hítardal, sem var fæddur 1665,
fer orðið lítið fyrir aðdáun á Jóni biskupi Arasyni. Um atburði
ársins 1550 skrifar hann:
41 Biskupa sögur II, 508.