Skírnir - 01.04.1999, Blaðsíða 113
SKlRNIR
107
JÓN
Athugasemdir þýðanda
Helstu vandamálin við að þýða Platon eru tvenns konar. í fyrsta lagi er
erfitt að endurskapa hans knappa, hnitmiðaða og launfyndna stíl, sem er
í senn óheftur og upphafinn. Óheftur af því að þetta eru samræður og
því skrifaðar nánast eins og leikrit, en upphafinn af því að þrátt fyrir að
þetta séu samræður, þá er þetta ekki beinlínis talmál. Stíll Platons felst
líka að miklu leyti í persónum samræðunnar, ólíkindalátum Sókratesar
og drýldni eða hroka viðmælendanna. Til að ná þessu fram er nauðsyn-
legt að auka örlítið við textann í íslensku útgáfunni, því grískan getur
komið þessum einkennum til skila með einu smáorði, en það er ekki
alltaf hægt í íslensku. Gott dæmi um hógværð grískunnar, ef svo má
segja, er þegar Sókrates segir við Jón að það hæfi ekki kvæðaþuli að vera
gleyminn (s.102). Þetta er sett fram á látlausan hátt, nánast kurteislega, en
er nokkuð beitt skot. Kvæðaþulir voru þekktir fyrir að þylja utanbókar,
jafnvel kviður Hómers í heild sinni, og Jón er þegar búinn að státa sig af
því að muna línur úr Hómer. En þó að Jón geti munað heilu kviðurnar
utanbókar, man hann ekki hvað hann sagði sjálfur fyrir örskotsstund, og
kemst í mótsögn við sjálfan sig. Höfum líka í huga gagnrýni Xenofons á
kvæðaþuli, að þrátt fyrir að þeir myndu heilu kviðurnar þá stigju þeir
alls ekki í vitið.1
Hitt vandamálið er öllu heimspekilegra. Það lýtur að orðanotkun
Platons og þýðingu á ýmsum hugtökum. Platon notar jafnan í verkum
sínum nokkur hugtök sem geta auðveldlega valdið erfiðleikum ef þau
eru ekki skilin rétt. Ég mun víkja sérstaklega að þeim hugtökum sem
mestu máli skipta í samræðunni og reyna að varpa skýrara Ijósi á þau en
hægt er með einu orði í þýðingunni.
1. Texvr/ (techne)
Þetta orð hefur valdið töluverðum vandræðum í þýðingum. Það þýðir
allt í senn handverk, tækni eða tækniþekking, fag eða fagþekking, list,
iðn og annað því tengt. Hjá Platoni merkir það yfirleitt: sú tækni eða að-
ferð, sem gerir mönnum kleift að gera eitthvað eða húa eitthvað til.
Þannig er techne rafvirkjans rafvirkjun, hershöfðingjans herstjórnarlist,
málarans málaralist og svo framvegis. í flestum þýðingum á Jóni sem ég
hef lesið er þetta hugtak þýtt með mismunandi orðum eftir samhengi. Ég
hef hins vegar ákveðið að þýða það með íslenska orðinu list, sem hefur
ekki ósvipaða merkingu og gríska orðið techne ef vel er að gáð. Oft er
sagt að eitthvað sé listilega vel gert þótt ekki sé endilega verið að ræða
1 Symp. 3.6; Mem. 4.2.10 og W.K.C. Guthrie, A History of Greek Philosophy,
IV, bls. 200.