Skírnir - 01.04.1999, Blaðsíða 227
SKÍRNIR
UM „ÆÐRI VEGINN“ í VERKIRABELAIS
221
hinni svokölluðu alþýðutrú.11 Þótt líta megi á hina furðulegu tilkomu
Gargantúa í þennan heim sem broslega skírskotun í himneska frjóvgun
guðsmóðurinnar má einnig skýra hana með hjátrú sem tengist fæðingar-
degi hans. Eins og Claude Gaignebet segir í riti sínu, Á plus hault sens.
L’ésotérisme spirituel et charnel de Rabelais (Á xðri veg. Ándleg og hold-
leg launhyggja Rabelais), eru afmælisdagar Gargantúa og Pantagrúels
einkar þýðingarmiklir, vilji lesandi vita hvað vakti fyrir höfundinum.12
Þessar dagsetningar eru að hans mati ekki valdar af tilviljun, því merking
þeirra, bæði í þjóðtrú og í dýrlingaátrúnaði, er lykill að verkinu. Hin
gróteska fagurfræði karnívalsins er vissulega í hávegum höfð hjá Rabela-
is, en hugmyndafræði þess, eins og hún birtist í skáldsögu hans, er einnig
nátengd hátíðisdögum kirkjunnar. Þótt karnívalið sé ekki af kristnum
toga er sprengidagur gjarnan settur í samband við föstuinngang og tíma-
setning hans fer því eftir páskum. Sprengidagur er í fyrsta lagi 2. febrúar
en eins og fram kemur í 6. kafla Gargantúa fæðist risinn hinn 3. febrúar,
sem samkvæmt dýrlingatali kaþólsku kirkjunnar er messudagur heilags
Blasíusar. Blasíus er verndardýrlingur ýmissa starfsstétta, til dæmis
söngvara, spunakvenna, smiða og byggingameistara miðalda, og Blasíus-
armessu tengjast forvitnilegir siðir. Marga þeirra má setja í samband við
loft og vind. Þá lýkur „orrustu vindanna", sem hefst á Pálsmessu 25. jan-
úar, og þá var bannað að spinna og vefa því vindurinn gat flækst í vefn-
um og setið þar fastur. Þök gátu fokið af húsum og sums staðar var
mælst til þess að fólk forðaðist allan vindaukandi mat til að koma í veg
fyrir óæskilegan innri vindgang.13 Talið var að þessi hjátrú ætti uppruna
sinn í einföldum orðaleik, því samkvæmt orðsifjafræði alþýðunnar var
nafnið Blasíus skylt þýsku sögninni blasen (blása). Ymsar hefðir og leikir
karnívaltímabilsins - sem einkennist af þenslu (áti, vexti, lofti) manna,
dýra og náttúru - eru þó af sama toga spunnin og þar má eflaust finna
skýringuna á hjátrúnni í kringum Blasíusarmessu, sem er einn af mörg-
um minnisvörðum um tilraunir miðaldakirkjunnar til að tileinka sér
forna trú og „njörva hana niður“ innan hins opinbera kirkjutímatals.
Claude Gaignebet bendir á að þessa siði karnívalsins beri að setja í sam-
band við þann átrúnað að sálir framliðinna séu á ferð til og frá jörðu um
vetrarbrautina og tvö hlið himins á ákveðnum árstímum, sem afmarkast
11 Claude Gaignebet: Le Folklore obscéne des enfants. Maisonneuve et Larose
(L’érotisme populaire). París 1974; Claude Gaignebet: Le carnaval. Essai de
mythologie populaire. Payot. París 1977; Claude Gaignebet, Jean-Dominique
Lajoux: Art profane et religion populaire au Moyen Age. Presses Uni-
versitaires de France. París 1985.
12 Fyrra heiti þessa rits er fengið að láni úr formála Gargantúa.
13 Caractéristiques des saints dans l’art populaire énumérées et expliquées par le
Pére Cahier. Poussielque fréres. París 1867, bls. 157-72; Gaignebet: Á plus
hault sens, bls. 183-93.