Skírnir - 01.04.1999, Blaðsíða 150
144
GUNNAR KARLSSON
SKÍRNIR
ast sömu goðsögn um uppruna sinn og sameiginlega sögu, skilur
sig oftast frá öðrum að menningu, venjulega tungumáli eða trúar-
brögðum, tengist oftast ákveðnu landi, hvort sem það býr þar eða
ekki, og finnur til samkenndar, þannig að misgerð við einn úr
hópnum af hálfu utanhópsmanna veki hefndarhvöt annarra í
hópnum. Þetta er það sem við köllum þjóð á íslensku, Volk/folk á
þýsku og skandinavísku, a people á ensku. Enski fræðimaðurinn
Anthony D. Smith notar um þetta franska orðið ethnie, en skil-
greininguna á fyrirbærinu hef ég sótt í bók eftir hann.7
Hver er þá munurinn á ævagamla fyrirbærinu þjóð og því sem
módernistar kalla nation og telja varla miklu meira en 200 ára
gamla stofnun? Besta skilgreiningin sem ég þekki á hugtakinu
nation er eftir Ernest Gellner. Hann gengur út frá því að þjóðir
og ríki séu upphaflega óskyld fyrirbæri. Síðan komi upp stefna
sem hann kallar nationalism og leitast við að láta mörk þjóða og
ríkja falla saman. Framsetning Gellners er að vísu dálítið undar-
leg. Annars vegar notar hann orðið nation um „þjóð“, áður en
hún tileinkar sér nationalism. I upphafi bókar sinnar segir hann
að þjóðernishyggja (nationalism) sé fyrst og fremst pólitísk krafa
um að pólitískar og þjóðernislegar (national) einingar falli saman.
Litlu síðar skýrir hann þetta nánar og segir að þjóðernishyggjan
haldi því fram að ríki og nation séu ætluð hvort öðru, annað án
hins sé ófullkomið og kalli á ógæfu. En, segir Gellner, áður en
þau gátu orðið ætluð hvort öðru urðu þau að verða til, og þau
urðu til hvort í sínu lagi. Ríki hafa vissulega orðið til án þess að
njóta til þess hjálpar frá nation. I sumum tilvikum hafa nations
orðið til án þess að hafa stuðning af ríki.
I þessari túlkun eru ríki og nation til fyrir, og þjóðernishyggj-
an, nationalism, giftír þau. Seinna kallar Gellner hins vegar nation
það fyrirbæri sem verður til við giftinguna. Þá segir hann að
nationalism geti af sér nations, en nations ekki nationalism,8
Eg held að síðartalda hugtakanotkunin fari betur við það sem
Gellner er einkum að halda fram. Því eigum við að líta á hina
7 Anthony D. Smith: The Ethnic Origins of Nations (Oxford, Basil Blackwell,
1986), 21-31.
8 Gellner: Nations and Nationalism, 1, 6, 55.