Saga - 2012, Side 11
Brátt kom í ljós að Jónas Jónsson frá Hriflu (1885–1968)6 kunni að
meta viðhorf Guðjóns og gerðist málsvari hans á pólitískum vett-
vangi. Á langri samleið studdi hvor annan: Jónas studdi leit Guðjóns
að þjóðlegum byggingarstíl og starf hans sem húsameistara ríkisins,
en Guðjón var að sínu leyti ótrauður að beita list sinni í þágu
þjóðernishreyfingarinnar.7 Enda lét Jónas bók sína um verk húsa-
meistarans heita hvorki meira né minna en Íslenzk bygging. Braut -
ryðjanda starf Guðjóns Samúels sonar.
Með þetta í huga þarf engan að undra þótt leiðir hafi skilið með
Guðjóni og kennara hans, Martin Nyrop. Guðjón kepptist við að
leggja grunn að starfsframa sínum á Íslandi, en Nyrop leit á hinn
bóginn svo á „að nemandi í dönskum skóla yrði að fást við dönsk
verkefni. Ekki ætti það síður við Íslendinga, þar sem land þeirra
væri hluti af danska ríkinu“; alltént segist Jónasi frá Hriflu svo frá
nokkrum áratugum síðar.8 Heldur Jónas því meira að segja fram að
Nyrop hafi sett Guðjóni þá úrslitakosti að snúast til danskrar stefnu,
ef hann vildi halda áfram námi. Skömmu síðar, haustið 1915, hvarf
Guðjón svo frá námi sínu óloknu og sneri heim til Íslands. Hvort
ágreiningur þeirra Nyrops réð þar úrslitum er erfitt að vita með
vissu. Eins má vera að fyrri heimsstyrjöldin hafi ýtt undir heimför
Guðjóns eða andlát systra hans tveggja; Jónas kann auðvitað að
segja söguna eins og hann vill að hún sé í minnum höfð.
Guðjón hittir á uppgangsár í Reykjavík og fær ærin verkefni, þar á
meðal listasafn Einars Jónssonar á Skólavörðuholti (1915–1916; reist
1923 af Einari I. Erlendssyni) og einmitt verslunarhúsið fyrir Nathan
& Olsen. Í ljósi þessarar velgengni virðist ósennilegt að Guðjón hefði
snúið aftur til Kaupmannahafnar ef Rögnvaldur Ólafsson, húsameist-
ari landsstjórnarinnar, hefði ekki fallið frá og Jón Magnússon forsætis-
ráðherra boðið Guðjóni starfið — með því skilyrði að hann lyki námi.
Það gerði Guðjón á árunum 1917–1919 og meira að segja hjá Nyrop.9
verslunarhús nathan & olsen … 11
6 Um Jónas frá Hriflu sjá Guðjón Friðriksson, Saga Jónasar Jónssonar frá Hriflu I–III
(Reykjavík: Iðunn 1991–1993).
7 Sjá Atli Magnús Seelow, Die moderne Architektur in Island in der ersten Hälfte des
20. Jahrhunderts. Transferprozesse zwischen Adaption und Eigenständigkeit (Nürn -
berg: Verlag für moderne Kunst 2011), bls. 127 o.áfr., 202 o.áfr.
8 Jónas Jónsson o.fl., Íslenzk bygging, bls. 11; sbr. Jónas Jónsson frá Hriflu,
Þjóðleikhúsið. Þættir úr byggingarsögu (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja1953), bls. 42.
9 Sjá Jónas Jónsson o.fl., Íslenzk bygging, bls. 11–12; sbr. Hörður Ágústsson, Íslensk
byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750–1940 ([Reykjavík]: Húsafrið -
unarnefnd ríkisins 1998), bls. 344.
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:39 Page 11