Saga - 2012, Page 45
höfðu augun opin gagnvart nýliðum fyrir kvennamálstaðinn, hafa
eflaust ekki látið slíka konu framhjá sér fara, enda var Sigríður virk
í samfélagi kvenna í Englandi og orðin nokkurs konar „socialite“ í
bresku menntasamfélagi.27 Heimild hermir að hún hafi sótt ráð -
stefnuna í París 1889 sem annar tveggja fulltrúa National Vigilance
Association28, samtaka sem stofnuð voru árið 1885 og börðust gegn
vændi og mansali og höfðu á að skipa baráttukonum á borð við
Josephine Butler og Millicent Garreth Fawcett. Hún sýndi einnig
áhuga á kosningaréttarbaráttunni; a.m.k. var hennar getið í upp-
talningu á þekktum áheyrendum á ársfundi miðstjórnar National
Society for Women’s Suffrage í Englandi árið 1889.29 Sigríður hafði hug
á að stofna kvennaskóla í Reykjavík og leitaði fjárstuðnings í
Englandi.30 Árið 1885 birtist bréf frá henni í ensku blaði þar sem hún
sagði dálítið frá Íslandi. Af því mátti skilja að tíminn hefði staðið í
stað í þessu landi; þar væru til að mynda engir vegir eða vagnhjól
og fólk færi á milli annaðhvort á hestum eða fótgangandi. Engir
æðri skólar væru til handa stúlkum. Því vildi hún breyta, og í
neðanmálsgrein ritstýru voru lesendur blaðsins vinsamlegast beðnir
að styðja fyrirhugaðan skóla. Sigríður hélt fyrirlestur í Queens’
College í Cambridge haustið 1889 undir heitinu „Home Life in
Iceland“. Að sögn blaðsins The Woman’s Herald sýndi hún einnig og
seldi sokka og vettlinga, sem unnir voru úr íslenskri ull, og safnaði fé
til stúlknaskóla.31
Sigríður talaði einnig um „higher school for girls in Iceland“ á
„mér fannst eg finna sjálfa mig …“ 45
27 Sbr. Sigrún Pálsdóttir, Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar
(Reykjavík: JPV útgáfa 2010), bls. 108.
28 Women’s Penny Paper, 1. árg. nr. 39 (1889), bls. 6–7. (Landsbókasafn var um
tíma með áskrift að http://gerritsen.chadwyck.com/marketing/index.jsp. Þar
má lesa Women’s Penny Paper, sem breytti um nafn árið 1891 og hét eftir það
The Woman’s Herald).
29 Women’s Penny Paper, 1. árg. nr. 38 (1889), bls. 2.
30 Meðal verndara söfnunarinnar voru Danakonungur, prinsessan af Wales og
ekkjufrú Churchill, sbr. auglýsingaspjald sem varðveitt er á Landsbókasafni
Íslands, sjá Sigrún Pálsdóttir, Icelandic Culture in Victorian Thought: British
Interpretations (c. 1850–1900) of the History, Politics and Society of Iceland.
Doktorsritgerð frá University of Oxford 2000, bls. 140. John Ruskin hét Sigríði
stuðningi í bréfi, sbr. Sigrún Pálsdóttir, Icelandic Culture in Victorian Thought,
bls. 140. Sigríður virðist svo sannarlega hafa náð eyrum áhrifamanna og
-kvenna og vakið athygli á Íslandi.
31 Women’s Penny Paper, 1. árg. nr. 59 (1889), bls. 74.
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:39 Page 45