Saga - 2012, Page 72
Þjóðernistilburðir íslensku fulltrúanna fóru þó í taugarnar á ein-
hverjum gestanna. Í Kvennablaðinu birtist í október 1913 þýðing á
grein sem Laufey skrifaði í Berlingske Tidende.113 Grein Laufeyjar var
svar við grein Pallene Bagger sem hafði birst í blaðinu skömmu
áður. Pallene sakaði Laufeyju um að hafa borið Dönum illa söguna
í ræðu sinni á fundi fyrir ungt fólk í Búdapest; jafnframt minnti
Pallene á að Íslendingar færu með umboð Danmerkur á heimsþing-
um. Látið var að því liggja að Laufey hefði misst skólastyrk sinn í
Danmörku vegna þessa.114 Ekki verða þessi orðaskipti rakin hér, en
ljóst er af öllu að þær íslensku konur sem sóttu heimsþing kvenna
litu svo sannarlega ekki á sig sem umboðskonur Danaveldis, hvorki
fyrr né síðar.
Eftir þessa velgengni í Búdapest þótti flestum ljóst að kosninga-
réttur kvenna væri á næsta leiti í flestum ríkjum Vesturlanda.
Heimsstyrjöldin fyrri, sem brast á 1914, olli því hins vegar að stjórn-
völd fengu víðast hvar um annað að hugsa og kosningaréttur
kvenna komst ekki á fyrr en kringum 1920 í flestum ríkjum Evrópu
og í Bandaríkjunum. Stjórnvöld á Íslandi þurftu lítið að taka tillit til
styrjaldarinnar í löggjöf sinni. Umræðan um kosningarétt kvenna
tók þó óvænta stefnu. Skömmu eftir fundinn í Búdapest samþykktu
alþingismenn kosningarétt til handa íslenskum konum — en með
þeim takmörkunum að hans nutu aðeins konur sem náð höfðu að
minnsta kosti 40 ára aldri. Bandaríski félagsfræðingurinn John
Markoff bendir á að samhliða bylgjunni fyrir kosningarétti kvenna,
sem reis upp kringum aldamótin 1900, hafi íhaldssamari viðhorf
sótt í sig veðrið. Markoff tekur Ísland og Bretland sem dæmi, en í
báðum löndum fengu konur takmarkaðan kosningarétt á þessum
árum, íslenskar konur árið 1915 og breskar árið 1918.115
auður styrkársdóttir72
113 Kvennablaðið 19. árg. 10. tbl. 9. október 1913, bls. 78–79.
114 Lögrétta, 3. desember 1913. Af bréfi Bríetar til Laufeyjar eftir fundinn 1913 má
skilja að fleiri danskar konur hafi tekið mál Laufeyjar óstinnt upp og hótað
Laufeyju þessu í Búdapest. (Bríet Bjarnhéðinsdóttir til Laufeyjar Valdimars dóttur
12. nóvember 1913. Lbs. Án safnmarks). Í öðru bréfi spurði Bríet hins vegar:
„Getur ekki verið að stefnuleysi þitt og áhugaleysi við námið hafi verið ástæðan
fyrir því að þú misstir styrkinn?“ (Bríet Bjarnhéðinsdóttir til Laufeyjar Valdi -
mars dóttur 22. desember 1913. Lbs. Án safnmarks). Af bréfum og bréfslitrum má
ráða að eitthvað það gerðist í ferðinni sem Bríeti féll mjög miður og olli því að
hún naut ekki ferðarinnar. Atburðurinn tengdist veikindum Laufeyjar, sem
virðast hafa verið af geðrænum toga. Það kemur hins vegar ekki við þessa sögu.
115 John Markoff, Waves of Democracy, bls. 86.
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:39 Page 72