Saga - 2012, Page 78
Saga L:1 (2012), bls. 78–103.
már jónsson
Skiptabækur og dánarbú 1740–1900
Lagalegar forsendur og varðveisla
Ómældar upplýsingar um lífskjör Íslendinga frá miðri 18. öld til fyrstu ára
20. aldar bíða lesturs, úrvinnslu og túlkunar í vannýttum gögnum á Þjóð -
skjalasafni Íslands í Reykjavík. Uppskriftir dánarbúa, skiptabækur og
uppboðsbækur sýna lausafjáreign mörg þúsund einstaklinga af öllum stig-
um, jafnt karla sem kvenna; hér birtast búsáhöld, smíðatól, veiðarfæri,
fatnaður, sængurföt, bækur og speglar, svo fátt eitt sé talið. Nokkrir fræði -
menn hafa nýtt þessi gögn um afmörkuð viðfangsefni, en aðrir ekki sem
hefðu haft gagn af þeim, svo sem við athuganir á verkmenningu og atvinnu-
háttum. Þörf er á yfirgripsmikilli og nákvæmri úttekt á þessum heimildum
svo þær nýtist sem vert væri til rannsókna á einstaklingum, landsvæðum og
félagshópum. Hér er lagður grundvöllur að slíkri könnun, og þá jafnframt
að markvissri úrvinnslu, með greinargerð um lagalega umgjörð og varð -
veislu þessara gagna.
Kvenhempa með dökkum flossaum, tvö græn klæðispils og rautt
flónelspils. Blá prjónapeysa ný, flikróttur flónelsbolur með sextán
koparmillum, blár klæðisbolur slitinn og gamall, nýleg þráðardúks-
skyrta, önnur ný og þriðja slitin. Svart prjónapils, annað gamalt og
slitið, þráðardúkssvunta forn og nærskjól. Klæðisbolur gamall með
sextán laufamillum, blá hversdagspeysa gömul og slitin, blá húfa ný
með grænum silkiskúf og önnur forn. Hálsskyrta gömul, treyju -
garmur með mittisbandi og koparpörum. Tvennir vettlingar, svartir
og hvítir, þrennir smásokkar, bláir sokkar með íleppum og sokka-
böndum, bláir neðangerningar með leistaræflum. Skákborðaklútur
með grænum og rauðum bekkjum, blár léreftsklútur silkidreginn,
blár silkiteinaklútur, rauður skákborðaklútur, rauðflikróttur klútur,
flikróttur klútur skemmdur og hvítleitur sakramentisklútur. Þessar
flíkur lét Sigríður Tómasdóttir í Árnesi við Húsavík eftir sig þegar
hún lést 30. maí 1841.1 Sigríður var 72 ára og hafði um ævina verið
1 Þjóðskjalasafn Íslands (ÞÍ). Kirknasafn. Húsavík BA 3. Prestsþjónustubók
1817–1869, bls. 120. Í dánarbúsuppskrift (sjá þarnæstu neðanmálsgrein) segir að
Sigríður hafi látist 31. maí. Slíkt ósamræmi í dagsetningum er algengt.
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:39 Page 78