Saga - 2012, Blaðsíða 79
vinnukona í Fnjóskadal, Aðalreykjadal og Flatey í Skjálfanda. Hún
giftist ekki en eignaðist son, 31. ágúst 1811, sem lést á öðru ári.2
Aðrar eignir Sigríðar voru fjórar ær „á ýmsum aldri“, metnar á
tólf ríkisdali samanlagt, og jafnmargar guðsorðabækur metnar á 52
skildinga: Gerhardi-hugvekjur, Passíusálmar, Þórðarbænir og Jóns -
spurningar. Sængurdýnu átti hún „nokkuð slitna“ með boldangs-
veri, tvíveraðan boldangssvæfil, slitið brekán og tvær rekkjuvoðir.
Hún átti bláan litunarstein, sápumola og skæri, nálaprillu og prjóna
tvo, prjónasessu og tvo svuntuhnappa úr kopar, spilkomu, skjóðu
með fjórum pundum mjöls, kollubauk með svolitlu af smjöri,
skjóðubuddu með svartri ull, lítinn vasa með smárusli, gamla kistu
og aðra minni, gamlan rokk og lítt nýtan. Ask átti hún nýjan og mat-
arfat, en jafnframt askræfil, troggepil og dallræfil. Ekki hrifust Einar
Jónasson hreppstjóri og sonur hans Jónas af reytum Sigríðar og fara
sem sjá má heldur óvirðulegum orðum um hlutina, sem allir saman
voru metnir á 39 rd. 21 sk.3 Á uppboði á Húsavík 7. júní fékkst svo-
lítið meira fyrir eignir Sigríðar, eða 42 rd. 9 sk. Útgjöld voru aftur á
móti allnokkur, þar á meðal líkkista, legkaup og umstang við jarðar-
förina, svo sem „lítið eitt af brauði og brennivíni“ handa grafar-
mönnum. Sigríður skuldaði ríkisdal „fyrir kindafóður“ og hrepp-
stjóri fékk sitt fyrir uppskriftina, matið og uppboðið en sýslumaður
fyrir arfaskipti, sem fóru fram 27. ágúst. Eftir stóðu 27 rd. 64 sk. sem
skiptust á þrjár dætur Hallfríðar systur Sigríðar og Þorláks
Jónssonar bónda á Þorsteinsstöðum í Laufássókn. Hallfríður lést
árið 1812, en dætur hennar voru Hallfríður húsfreyja á Kaldbak
norður af Húsavík, Þórunn vinnukona á Hofteigi í Jökuldal og
Sigríður vinnukona í Möðrudal á Fjöllum. Hreppstjóri borgaði Hall -
fríði af uppboðspeningunum og sýslumaður tók að sér að koma arf-
inum til systra hennar með aðstoð starfsbróður síns í Múlasýslu „í
anvisning eða reiðupeningum“.4
skiptabækur og dánarbú 1740–1900 79
2 Langa sögu mætti segja af Sigríði á grundvelli kirkjubóka og manntala, og
verður það gert á öðrum vettvangi. Um Árna son hennar og Jónasar Árnason-
ar vinnumanns, sjá ÞÍ. Kirknasafn. Þönglabakki BA 1. Prestsþjónustubók 1785–
1816, bls. 58; Hálsþing BA 2. Prestsþjónustubók 1785–1816, bls. 78.
3 ÞÍ. Sýsluskjalasafn. Þingeyjarsýsla ED2/6. Dánarbú 1840–1843, örk 4, bl. 28:
Sigríður Tómasdóttir, uppskrift 4. júní 1841.
4 ÞÍ. Sýsluskjalasafn. Þingeyjarsýsla ED2/6. Dánarbú 1840–1843, örk 4, bl. 29:
Sigríður Tómasdóttir, uppboð 7. júní 1841; Þingeyjarsýsla ED1/1, 2. Skiptabók
1838–1843, bls. 303–304. Bréf um málið eru í Þingeyjarsýsla A/2, 1. Bréfadagbók
1841–1843, nr. 167 (það númer er á fylgiskjölum); Þingeyjarsýsla B/19, 2. Bréf
1840–1841: 10. ágúst 1841; B/19, 3. Bréf 1841: 10. ágúst 1841.
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:39 Page 79