Saga - 2012, Side 89
sinn hlut“.34 Það er sammerkt með þessu fólki að eignir voru miklar
og það á við um önnur dánarbú sem til eru frá þessum áratugum,
með þeirri undantekningu að þegar Cornelius Wulf tók við embætti
landfógeta 15. ágúst 1717 varð hann jafnframt sýslumaður í Gull -
bringusýslu og datt ekki annað í hug en að útbúa sérstaka skipta-
bók.35 Nokkrir sýslumenn tóku upp þann sið næstu árin að halda
þessum gögnum til haga, sé miðað við varðveittar bækur og sam-
sett hefti skiptagjörninga sem hefjast árið 1738 í Eyjafjarðar sýslu,
árið 1743 í Árnessýslu og árið 1760 í Skaftafellssýslu.36
Magnús Ketilsson, sýslumaður Dalasýslu, átti von á því að
stjórnvöld létu þýða og prenta erfðareglur Norsku laga eftir að þær
tóku gildi á Íslandi. Þegar það rættist ekki gerði hann það sjálfur
þegar komin var prentsmiðja í umdæmi hans í Hrappsey. Ávarps-
orð hans í sérstökum bæklingi um erfðalögin eru dagsett 3. septem-
ber 1771. Í formála rökstyður hann framkvæmdina með því að regl-
urnar nýju séu „á ókennda tungu, þá fæstir af almúga skilja“. Enn
færri áttu eintak af Norsku lögum. Ný íslensk lögbók, sem þá var í
smíðum, myndi án efa innihalda sömu erfðareglur og „þá er þetta
ei ónýtt“. Í lokaorðum ítrekaði hann að þetta væri gert „alþýðu til
undirvísunar“ og bað hana „vel að virða viðleitni mína“, en lærða
menn sem ekki þurftu „undirvísunar“ bað hann „gott til að leggja“.
Texti laganna er prentaður á íslensku með skýringum Magnúsar og
var hvort tveggja gefið út aftur sem hluti af þýðingu hans á Norsku
lögum í heild árið 1779.37 Erfðalögin verða ekki gerð að umtalsefni
hér sem slík, aðeins ákvæðin sem varða skipti á arfi og þess freistað
að rekja þau rökréttar en gert er í lögunum sjálfum.
Meginreglan birtist í sextándu grein: „En séu erfingjar allir
mynd ugir og nálægir, þá á yfirvaldið sér þar ekkert af því að skipta
nema þess sé af því beðist“ (5-2-16). Fyrsta grein laut hins vegar að
því hvenær ætti að ganga til opinberra skipta og hvert væri hlutverk
aðstandenda hins látna og yfirvalda: „Þegar einhvör við dauðann
skiptabækur og dánarbú 1740–1900 89
34 Til merkis mitt nafn, bls. 127.
35 ÞÍ. Sýsluskjalasafn. Gullbringu- og Kjósarsýsla ED1/9, 2. Skiptabók 1717–1726.
36 ÞÍ. Sýsluskjalasafn. Eyjafjarðarsýsla ED1/1, 3. Skiptabók 1738–1768; Árnessýsla
ED1/7, 1. Skiptabók 1743–1746; Skaftafellssýsla ED2/1, 1–2. Dánarbú 1760–
1799.
37 Útlegging yfir Norsku Laga V. Bókar II. Capitula um Erfðir: með stuttum útskýríng-
um á því sem þungskilið er (Hrappsey 1773), bls. 1–23; Kóngs Christians þess
fimmta Norsku lög á íslensku útlögð (Hrappsey 1779), d. 502–507. Framvegis er
vísað til kafla- og greinatals í meginmáli.
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:39 Page 89