Saga - 2012, Side 115
rétti um þetta efni. Þegar kristinréttur Þorláks og Ketils er saminn,
er kristinréttur Ólafs digra enn í gildi. Í varðveittum Gulaþings -
lögum er auk kristinréttar Ólafs að finna breytingar sem gerðar voru
á honum í tíð Magnúsar Erlingssonar, líklega árið 1164. Hvaða
ákvæði Magnús lét afnema („Magnús tók úr sumt“)42 er ekki til-
greint. Skoðun á yngri kristinrétti, sem eignaður er þeim konungum
Sverri Sigurðarsyni (1190), Magnúsi lagabæti Hákonarsyni (1263) og
enn fremur Jóni erkibiskupi rauða frá 1273, leiðir í ljós að útburður
eða vanræksludráp á barni með vanskapað höfuð er enn í gildi. Ekki
er minnst á annan vanskapnað.43
Samskonar ákvæði er að finna í kristinrétti Árna Þorlákssonar,
sem leysti af hólmi kristinrétt Þorláks og Ketils sem var lögtekinn í
Skálholtsbiskupsdæmi árið 1275 en löngu síðar, árið 1354, einnig
fyrir Hólabiskupsdæmi.44 Um barnaskírn segir að ala skuli hvert
barn sem fæðist og mannshöfuð er á, þó að með nokkrum örkuml-
um sé, og færa sem fyrst til kirkju og skíra. Túlka má ákvæðið
þannig að ekki hafi átt að ala upp né skíra barn sem ekki hefði
mannshöfuð, ef höfuð barnsins væri á einhvern hátt afbrigðilegt og
gæfi því ómennskt útlit, jafnvel eitthvað í líkingu við þær lýsingar
sem greinir frá í norskum kristinrétti (sjá 1. töflu). Ákvæðið felur í
sér óbeint leyfi til útburðar eða vanræksludráps á barninu.
Til greina kemur að ofangreind ákvæði sem varða vansköpuð
börn séu nýmæli í norskum lögum og uppruna og tilurð þeirra megi
rekja til erlendra áhrifa á norskan kristinrétt.
Erlend áhrif á norskan kristinrétt
Fræðimenn hafa velt fyrir sér mögulegum engilsaxneskum áhrifum á
kristnun Noregs og norskan kristinrétt.45 Í Heimskringlu segir að
Ólafur digri hafi verið við hirð Aðalráðs (Æthelred) Englands kon -
ungs en á ríkisárum hans átti sér stað umfangsmikil ritun kirkjulaga.
vansköpuð börn 115
42 Norges gamle Love indtil 1387 I, bls. 12.
43 Sama heimild, bls. 419; II, bls. 293, 327, 341 og 419.
44 Biskupa sögur III. Útg. Guðrún Ása Grímsdóttir. Íslenzk fornrit XVII (Reykjavík:
Hið íslenzka fornritafélag 1998), bls. 47–48; Haraldur Berharðsson, Magnús
Lyngdal Magnússon og Már Jónsson, „Inngangur“, Járnsíða og kristinréttur
Árna Þorlákssonar (Reykjavík: Sögufélag 2005), bls. 31.
45 Sverre Bagge, From Viking Stronghold to Christian Kingdom, bls. 195–196; Marit
Myking, Vart Noreg kristna fra England?, bls. 11, 13 og 187–194.
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:40 Page 115