Saga - 2012, Page 162
þjóðernishyggju.3 Hann er oft rifjaður upp, bæði í kennslubókum og
ljóðum skáldanna, til að minna á ólögmæti heimsvaldastefnunnar.
Dinshaway er líka áminning um þá staðreynd að íbúar Mið-
Austurlanda og Vesturlanda líta oft sama atburðinn mismunandi
augum. Réttlæting eins skapar ekki réttlæti fyrir annan. Fyrir þorps-
búana í Dinshaway var litla dúfan birtingarmynd vandans og skýrt
dæmi um tvöfalt siðgæði vesturlandabúa, sem mótað hefur sam-
skipti þeirra við íbúa Mið-Austurlanda. Þannig var á sama tíma
fjallað um þennan atburð í London með þeim hætti að hann sýndi
glöggt hversu vanþakklátir og ofbeldishneigðir íbúar þessa svæðis
væru. Þeim væri einfaldlega ekki treystandi og ekki færir um að
höndla nútímann eða nútímastofnanir. Þetta viðhorf til innfæddra
og almennir kynþáttafordómar voru svo notaðir til að réttlæta
harkaleg og ofbeldisfull viðbrögð breskra stjórnvalda þegar álitaefni
komu upp á yfirborðið.
Ég lýsti þessum atburði hér í upphafi vegna þess að hann sýnir,
að mínu mati, hvers vegna þekking á sögu Mið-Austurlanda er
algjört lykilatriði til að skilja og meta stjórnmál þessa svæðis. Þetta
er sjálfsögð og augljós staðreynd. Hún á sannarlega við um Mið-
Austurlönd eins og öll önnur svæði heimsins. En það sem skiptir
máli hér, og vill oft gleymast, er munurinn á því að skilja söguna
annars vegar og að meta hana hins vegar. Er nóg að skilja sögu Mið-
Austurlanda, þ.e. vita hver gerði hvað, hvar og hvenær? Hvað felur
slíkur skilningur í sér?
Atburðurinn í Dinshaway rís ekki hátt í stjórnmálasögu 20. ald-
ar, enda virðist hann á yfirborðinu harla ómerkilegur, sérstaklega í
ljósi fjölda þeirra sem létu lífið, þ.e. einungis átta, sem er nánast ekki
neitt miðað við önnur stríð og óeirðir síðustu aldar. En sú grund-
vallarstaðreynd málsins er ekki það sem mestu skiptir heldur sjálf
táknmynd atburðarins. Við þurfum að meta hvers vegna þessi
atburður er svo mikilvægur fyrir Egypta, hverskonar tilfinningar
hann kallar fram og hvernig hann hefur verið nýttur til að þróa og
efla þjóðernishyggju í Egyptalandi. Einnig verðum við að meta
magnús þorkell bernharðsson162
3 Nánast öll verk um egypska þjóðernishyggju, hvort heldur þau eru rituð á arab-
ísku eða vestrænum tungumálum, flétta inn Dinashaway með einum eða
öðrum hætti þegar fjallað er um þróun þjóðernishyggjunnar í Egyptalandi.
Dæmi á ensku eru Beth Baron, „The Construction of National Honour in
Egypt“, Gender and History 5 (1993), bls. 244–255, og Ziad Fahmy Ordinary
Egyptians. Creating the Modern Nation Through Popular Culture (Palo Alto: Stan -
ford University Press 2011).
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:40 Page 162