Saga - 2012, Page 168
suðurhluta Íraks við breskan embættismann árið 1920: „Þið komið
hingað og lofið okkur sjálfstæði. Við báðum aldrei um það eða lét-
um okkur dreyma um sjálfstæði fyrr en þið komuð fram með þá
hugmynd. En nú, þegar við viljum sjálfstæði, þá stingið þið okkur í
fangelsi.“8 Írakar máttu semsé þrá að öðlast sjálfstæði frá Tyrkjum
en ekki frá Bretum.
Bretum tókst að kveða uppreisnina niður og staða þeirra í Írak
var enn trygg, hernaðarlega séð. Pólitísk viðbrögð þeirra við þessari
uppreisn voru á þá lund að Írökum, sérstaklega sjítum, væri ekki
treystandi. Þeir túlkuðu uppreisnina 1920 ekki sem eðlileg viðbrögð
þjóðernissinna heldur sem tilfinningaleg og trúarleg viðbrögð aðila
sem voru bæði vanþakklátir og illa upplýstir. Bretar tóku þetta pers-
ónulega — sem atlögu að sér og bresku krúnunni. En fyrir Írökum
beindist uppreisnin ekki að Bretum; hefðu þetta verið Rússar hefðu
þeir ráðist á Rússa. En úr því að Bretar túlkuðu þetta sem persónu-
lega móðgun, var ákveðið að finna rétta Íraka til að taka við stjórn
landsins — Íraka sem hægt væri að treysta. Þar var hins vegar, að
mati Breta, ekki um auðugan garð að gresja og því ákváðu þeir að
leita út fyrir landsteina Íraks. Þeir fluttu inn konungsfjölskyldu frá
Arabíu, fjölskyldu Faysals, og stofnuðu Hashemíta-konungsveldið
Írak. Bretar veittu þessum ákveðnu einstaklingum mikil völd og
fólu þeim að hafa stjórn á landinu og — umfram allt — sýna hverj-
ir færu með valdið. Umboð Hashemítanna kom ekki frá þjóðinni
heldur veittu Bretar þeim það.
Slík valdstjórn gat auðvitað ekki stjórnað án ofbeldis og með
ofbeldi sáði hún smám saman vaxandi óánægju meðal Íraka sem að
lokum endaði með blóðugri byltingu árið 1958 þegar konungsfjöl-
skyldan var myrt og lýðveldið Írak stofnað í kjölfarið. Þar með lauk
sögu Breta í Írak.
En upphafið að þessu var uppreisnin 1920 og viðbrögð Breta þá.
Sú uppreisn hafði mesta þýðingu í hugum Íraka, þótt þeir hefðu
beðið lægri hlut. Í fyrsta sinn unnu Írakar af ólíkum ættbálkum sam-
an til að berjast gegn Bretum. Súnnítar, Sjítar og Kúrdar komu sam-
an nánast sem einn í tilraun til að veita Breska heimsveldinu mót-
spyrnu. Vissulega hefðu Írakar kosið að vinna sigur. Hins vegar
varð minningin um kjark, þor og áræði Íraka mikilvæg grunnstoð í
þjóðarmýtunni. Írakar unnu saman í þessari uppreisn til þess að
magnús þorkell bernharðsson168
8 Þessa tilvitun má finna í bók Arnold T. Wilson, Loyalties: Mesopotamia 1914-1917
(London: Oxford University Press 1930) bls. 89.
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:40 Page 168