Saga - 2012, Síða 179
(sem Þorkell Jóhannesson nefndi svo fyrir um hálfri öld11), og enn
er almennt viðtekin í grundvallaratriðum; þótt vissulega skorti á
frekari fornleifarannsóknir á fornum fiskistöðvum víðar um landið
séu líkur til þess að auknar samræður á milli sagnfræðinga og forn-
leifafræðinga mái hefðbundin kaflaskil eða ýti þeim að minnsta
kosti framar.
Taxes, Tributes and Tributary Lands in the Making of the Scandi -
navian Kingdoms in the Middle Ages er harðari undir tönn að því leyti
sem hún er tæknilegri og á ýmsan hátt ítarlegri en The Norwegian
Domination, og er ekki slegið úr í titli. Hún er að sama skapi
heildstæðari, einbeittari og heilt yfir frekar til nýmælis. Í marxískri
sögugreiningu er miðstýrð upptaka og endurdreifing raunar lykil-
atriði í skilgreiningu ríkisvalds, og má hafa til dæmis nýlega og yfir-
gripsmikla túlkun Chris Wickhams á valdaformgerðum ármiðalda;
mælikvarði Wickhams á styrk og grunngerð ríkisvalds er að end-
ingu skatttekja og þær stofnanir sem styðja hana.12 Upphaf eiginlegs
skattkerfis er á hinn bóginn erfitt að rekja nákvæmlega, ekki ein-
ungis vegna heimildavanda heldur einnig þess að það óx víða hægt
fram og úr óskyldum jarðvegi. Þetta setja flestir greinarhöfunda
Taxes, Tributes and Tributary Lands á oddinn, ekki síst Jón Viðar,
Helgi, Boulhosa og Már Jónsson. Bæði Jón Viðar og Helgi leggja
áherslu á félagslegt og pólitískt samhengi skattgjafa eða gjalds ekki
síður en efnahagslegt eða fjárhagslegt vægi þeirra; Jón Viðar telur
að með skattgjöfum hafi formleg tengsl (vinátta) Íslendinga og kon-
ungs á þrettándu öld verið staðfest í verki, og með svipuðum rök-
um telur Helgi að hinum meiri bændum hafi líklega verið jafnþungt
að kyngja frelsi sínu með táknrænum hætti og að axla álögur. Um
pólitíska vináttu og gjafaskipti fjalla fornsögur í löngu máli og renna
stoðum undir slíkan skilning, en hvernig nákvæmlega konungur
heimti skatt á Íslandi í upphafi, hvernig skatturinn komst í hendur
honum eða hvenær nákvæmlega skattgreiðslur urðu fastar og reglu-
legar er öllu óljósara. Allgott bit er í röksemdafærslu Boulhosu og
Más um að hreppstjórar hafi tæplega séð um skattheimtu í upphafi,
þvert á það sem fram kemur í varðveittum gerðum Gissurarsáttmála
og er almennt hald fræðimanna þar um, en varla er bitið úr nálinni
konungsvald og aristókratía … 179
11 Sbr. Þorkell Jóhannesson, Lýðir og landshagir 1. Útg. Lárus H. Blöndal (Reykja -
vík: Almenna bókafélagið 1965), bls. 45 og 48.
12 Chris Wickham, Framing the Early Middle Ages. Europe and the Mediterranean
400–800 (Oxford: Oxford University Press 2005), einkum bls. 56–150.
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:40 Page 179