Saga - 2012, Page 180
með það. Þótt ritið í heild veiti nýja sýn á einstök atriði í samvexti
skattheimtu og ríkisvalds sýnir það fyrst og fremst hversu mikið og
mikilvægt rannsóknarstarf er óunnið á þessum vettvangi í sögu
Norðurlanda á miðöldum.
Mjög hefur verið rætt um þann hluta doktorsritgerðar Boulhosu
sem hverfist um skyld rök og rekur tilurð varðveittra gerða Giss -
urar sáttmála og Gamla sáttmála til fimmtándu og sextándu aldar.13
Hins vegar hafa aðrir og jafngildir hlutar ritgerðarinnar lent milli
stafs og hurðar. Kjarninn í málflutningi Boulhosu er að haldbær rök
skorti til þess að líta á framgang konungsvalds á Íslandi sem af -
markaðan sögulegan atburð eða næsta formálalaus umskipti; þvert
á móti hnígi öll rök til þess að íslenskt samfélag og norskt konungs-
vald hafi vaxið saman á löngum tíma og atburðir þrettándu aldar
marki þannig áfanga í þeirri þróun fremur en rof eða frávik. Slík
sjónarmið enduróma í tveimur nýbirtum doktorsritgerðum um efl-
ingu ríkisvalds og stjórnvaldsstofnana í Noregsveldi: Norges konges
rike og hans skattland. Kongemakt og statsutvikling i den norrøne verden
i middelalderen eftir Randi Bjørshol Wærdahl frá 2006, birt í enskri
þýðingu Alan Croziers 2011, og I kungens frånvaro. Formerin gen av en
isländsk aristokrati 1271–1387 eftir Sigríði Beck frá 2011. Höfuðáhersla
beggja hvílir á stöðugri mótun og gagnmótun konungsvalds og ari-
stókratíu á lengra tímaskeiði.
Enskur bókartitill Wærdahls vísar skilmerkilega til eldri rann-
sóknarhefðar, en í stórsögu norska konungsríkisins hafði innlimun
skattlandanna (incorporation) þýðingu sem samlögun þeirra og
miðstjórnarvalds (integration) hafði ekki, enda liggja mörkin nærri
lokum þess tímabils í sögu Noregs sem áður var talið mestu varða.
Áhugi Wærdahls kviknar þar sem hann dofnar hjá fyrirrennurum
hennar og hún fylgir þeirri ályktun að til fyllri skilnings á eðli og
þróun norska konungsríkisins á miðöldum sé nauðsynlegt að taka
til alls sem í vald þess féll og rann í heild. Hið afrækta rannsóknar-
efni, pólitísk samlögun miðju og jaðars, verður því meginviðfangs-
efni og teygir sig út yfir hefðbundin tímamörk, allt til loka fjórtándu
viðar pálsson180
13 Patricia Pires Boulhosa, Icelanders and the Kings of Norway. Mediaeval Sagas and
Legal Texts. The Northern World 17 (Leiden: Brill 2005), bls. 87–153, sbr. sérút-
gáfu: Gamli sáttmáli. Tilurð og tilgangur. Þýð. Már Jónsson. Smárit Sögufélags
(Reykjavík: Sögufélag 2006). Nýleg orðaskipti eru Helgi Skúli Kjartansson,
„Gamli sáttmáli — hvað næst?“, Saga 49: 1 (2011), bls. 133–153; Patricia Pires
Boulhosa, „A response to ‚Gamli sáttmáli — hvað næst‘“, Saga 49: 2 (2011), bls.
137–151.
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:40 Page 180