Saga - 2012, Page 192
ólöf garðarsdóttir
Af karlmönnum eru aðeins fimm bændur sæmilega skrifandi og ung-
lingar þar á borð við, … en þó konur nokkrar og stúlkur pári hvörjar
öðrum, má það eigi skrift heita.
Þessi tilvitnun er sótt í Sýslu- og sóknarlýsingar Hins íslenska bókmenntafélags
frá árunum 1839–1844 og lýsir viðhorfum Jóns Jónssonar prests í Höfðasókn
í Norður-Þingeyjarsýslu til skriftarkunnáttu sóknarbarna hans. Mér þykir
við hæfi að hefja umfjöllun um doktorsritgerð Erlu Huldu Halldórsdóttur á
þessum ummælum, en eins og fram hefur komið í umfjöllun fyrri andmæl-
anda eru persónuleg bréf helstu heimildir Erlu Huldu. Ummæli séra Jóns
um bréfaskriftir kvenna eru líka við hæfi í ljósi þess að hann starfaði í þeim
landshluta sem einna mest kemur við sögu í ritgerð Erlu Huldu.
Nú er ekki gott að segja hvort Jón Jónsson vísar með ummælum sínum til
einhverra þeirra kvenna sem leika lykilhlutverk í ritgerðinni, en ljóst má
vera að menn litu bréfaskriftir kvenna á síðari hluta nítjándu aldar misjöfn-
um augum. Og ummælin vekja okkur óneitanlega til umhugsunar um það
hverjir hafa valdið til að skilgreina — valdið til að ákveða hvað sé menntun
og hverjir geti talist skrifandi. Sendibréf hverra geyma fróðleik eða viðhorf
sem skipta máli, sendibréf hverra má afgreiða sem „pár“ sem á lítið erindi
við samfélagið? Ritgerð Erlu Huldu Halldórsdóttur, Nútímans konur, fjallar
einmitt um þetta atriði: valdið til að skilgreina en ekki síður valdið til að
vera frjáls til að afla sér þeirrar menntunar sem hugur manns — eða öllu
heldur hugur konu — stendur til. Ritgerðin verður að teljast tímamótaverk
á sviði kyngervisrannsókna hér á landi. Helsti kostur hennar er hve höfundi
tekst vel að nýta persónulegar heimildir til að varpa ljósi á viðhorf til mennt-
unar kvenna við upphaf nútímans á Íslandi.
Menntun kvenna leikur lykilhlutverk í ritgerðinni og eins og fyrri and-
mælandi, Páll Björnsson, bendir á er ritgerðin í senn kvenna-, kynja- og
skólasaga. Páll hefur fjallað um hið kynjasögulega sjónarhorn ritgerðarinn-
ar, en umfjöllun minni hér á eftir er öðru fremur ætlað að rýna í ritgerðina
út frá skólasögulegu og skólapólitísku sjónarhorni. En fyrst langar mig að
fara nokkrum orðum um tímaramma rannsóknarinnar.
Tímarammi ritgerðarinnar er síðari hluti nítjándu aldar sem var tími
mikilla umbrota í íslensku samfélagi. Þetta er tími hagrænna og samfélags-
legra breytinga en ekki síður breyttra viðhorfa til alþýðumenntunar, hvort
sem litið er til barnafræðslu eða framhaldsmenntunar. Ritgerðin afmarkast
af tveimur ártölum, 1850 og 1903. Fyrra ártalið vísar til þess pólitíska umróts
sem var á meginlandi Evrópu um miðbik aldarinnar, en Erla Hulda bendir
á að árið 1850 hafi einnig verið merkilegt ár í kvennasögulegu samhengi, því
að það ár fengu stúlkur hér á landi sama erfðarétt og bræður þeirra (bls. 34).
Síðara ártalið vísar svo til þeirra tímamóta þegar íslenskar konur hlutu sama
andmæli192
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:40 Page 192