Saga - 2012, Page 202
Þó að Páll sé fremur þögull um kenningaramma sinn — persónulega
hefði ég viljað sjá hann birtast af fullum krafti — þá er þessi kenningarammi
til staðar og ljóst hver hann er. Páll byggir á minningafræðum (e. memory
studies), þ.e. þeim fræðum sem greina í sundur minningar, sögu og fræði -
lega greiningu (svo sem með sagnfræði). Sameiginlegar minningar (e. col-
lective memory) eru kjarninn í þessari hugsun og Páll er næmur á tilbrigði
þeirra eftir landshlutum, hópum og tímabilum. Hann sýnir einnig glöggt
hvernig hagsmunahópar, hugmyndastefnur og einstaklingar hafa vélað um
þessa minningu, speglað sig í henni, fundið samsvörun og hugsvölun í
henni, teygt hana og togað og reynt að gera hana að kórréttri sögu.
Með aðferð sinni og þankagangi er Páll Björnsson í fríðum flokki rann-
sakenda í mörgum fræðigreinum. Þekktasti fyrirrennari hans er líklega
franski sagnfræðingurinn Pierre Nora sem með stórvirki sínu Lieux des
mémoires (Stöðum/Kennileitum minninganna) safnaði hundrað fræðimönn-
um saman til að fjalla um „staði“ í Frakklandi. Minning og saga einstaklinga
er hins vegar ekki uppáhaldssvið minningafræðinga. Tími hetjanna er
liðinn. Í safni Pierre Nora eru fáir einstaklingar hafðir að heildstæðu umfjöll-
unarefni. Jóhanna af Örk fékk einn kafla í þriðja bindi (sem kom út 1992) og
sýnir höfundurinn, Michel Winock, hvernig hún hafi verið gerð að fánabera
andstæðra afla og sjónarmiða í aldanna rás — ýmist að átrúnaðargoði
kaþólskunnar eða gagnrýnanda og fórnarlambi kirkju og rannsóknarréttar,
gerð að bjargvætti konungsvaldsins eða þjóðarinnar og þar með lýðveldis-
sinna og síðar þjóðernissinna, verið talin sannur fulltrúi alþýðunnar eða stoð
og stytta ráðandi afla. Samanborið við þetta virðist minningin um Jón
Sigurðsson vera tiltölulega einsleit. Greiningar á minningu áberandi ein-
staklinga eru þannig til þótt ekki séu þær algengar. Einn fremsti fræði -
maður inn á því sviði er bandaríski félagsfræðingurinn Barry Schwartz sem
hefur kannað minningu og sögu nafnkunnra persóna og sér í lagi Abrahams
Lincoln, sem var hér um bil jafnaldri Jóns. Páll nýtir sér athuganir hans í bók
sinni. Víkjum betur að Lincoln síðar.
Hvar er sameiginlegu minninguna að finna? Um þetta eru skiptar skoð -
anir og ýmsar leiðir eru farnar til að hafa uppi á henni. Páll leitar í blöðum,
tímaritum, sendibréfum, póstkortum, frímerkjum, málverkum, ljósmynd-
um, minnisvörðum, opinberum gögnum og ýmsu til. Áherslan á sameigin-
legar minningar kallar á ýmsar gerðir heimilda sem sagnfræðin hefur í öðr -
um tilvikum minni áhuga á vegna vandkvæða um áreiðanleika. Áreiðan-
leikinn fær nýja vídd í sagnfræði sem tekur mið af minningum. Slitin og
útkrotuð kennslubók er áreiðanlegri heimild um notkun en ósnert eintak,
svo að dæmi sé tekið.
Páll lætur ekki við þetta sitja heldur skapar einnig heimildir. Hann stóð
fyrir könnun á þekkingu og viðhorfum til Jóns Sigurðssonar með því að
tekið var slembiúrtak úr þjóðskrá, könnun send til 1590 karla og kvenna
með íslenska kennitölu, á aldrinum 18–80 ára, og fengust 955 gild svör.
ritdómar202
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:40 Page 202