Saga - 2012, Síða 212
Kaflinn „Adoption. Samarbete för rättslikhet“ (bls. 212–270), sem Cecilia
Lindgren er höfundur að, fjallar um samstarf um löggjöf um ættleiðingar
barna, sem hófst um 1900, milli Dana, Norðmanna og Svía. Hún kannar
hvernig til hefur tekist að ná jafnstöðu fyrir ættleidd börn í samanburði við
önnur. Í upphafi 20. aldar var talið sjálfsagt að blóðtengsl færu saman við
lagalega réttarstöðu en í lok aldarinnar tengdust réttindi því að þekkja til
uppruna síns.
Síðasti kaflinn, „Krigs- och flyktingbarn i Norden“ (bls. 357–394), fjallar
um þann mikla fjölda barna sem fékk hæli á Norðurlöndum á árum heims-
styrjaldanna beggja og í kjölfar þeirra. Efninu hefur verið minni gaumur gef-
inn en öðrum efnisþáttum í ritinu en höfundurinn, sænska fræðikonan
Monika Janfelt, hefur lagt drjúgan skerf til rannsókna á þessum merkilega
þætti í norrænni barnasögu.
Nordiska barndomar er vandað og upplýsandi rannsóknarverk sem er
höfundum til sóma. Í heild hefur tekist vel að framkvæma meginásetning-
inn, þ.e. að rita sögu barnæsku og velferðarstefnu á Norðurlöndum í sam-
anburðarljósi. Í lokakafla bókarinnar álykta höfundar að vonin um 20. öld
sem „öld barnsins“ hafi að hluta til ræst. Ungbarnadauði sé nánast úr sög-
unni og ýmsir sjúkdómar og félagsleg vandamál, tengd fátækt, ofbeldi og
fjölskyldumálum, hafi tekið á sig aðra mynd. Með réttu telja höfundar rann-
sóknina sýna að velferðarpólitík geti verið þversagnakennd: Þó að félagsleg
barnavernd færi börn í brennidepil hafi börnin jafnframt hafnað að miklu
leyti á jaðrinum.
Nú er álitamál að hve miklu leyti börn eru í brennidepli í barnavernd og
sýnist sitt hverjum. Ný vinnubrögð, svo sem aukið samráð og samstarf við
börn og fjölskyldur og meðferðarlíkön utan stofnana, gefa vonir um að þró-
unin stefni í rétta átt. Enn er þó órannsakað hversu hentug þau hafa reynst.
Ýmis málefni, sem hafa verið rædd alla 20. öld, svo sem fóstur barna á
einkaheimilum, bíða frekari rannsókna en bókin varpar m.a. áhugaverðu
ljósi á slík álitamál.
Ljóst má vera að í þessari rannsókn liggur áherslan á löggjöf og hug-
myndastrauma 20. aldar. Auk stjórnmálamanna eru gerendur sögunnar
einkum sérfræðingar á sviði uppeldismála, félags- og heilbrigðisþjónustu.
Frá þessu sjónarhorni varpar ritið skýru ljósi á þróun barnæskunnar. Aftur
á móti segir hér fátt um velferðarstefnuna í framkvæmd, hvernig hún birtist
í reynslu skjólstæðinganna, einkum barna/ungmenna og aðstandenda
þeirra. Ekki verður heldur með sanngirni ætlast til að rit sem þetta slái
margar flugur í einu höggi. En ljósmyndirnar í bókinni, um 40 talsins, af
börnum við ýmsar aðstæður og á ýmsum tímaskeiðum, færa lesandann til
muna nær þeim hópi sem njóta átti góðs af velferðarstefnunni. Það kitlar
Íslendingstaugina að um fimmtungur myndefnisins er ættaður frá Íslandi.
Skýringartexti fylgir hverri mynd og þar getur jafnframt geymslustaðar.
Guðrún Kristinsdóttir og Loftur Guttormsson
ritdómar212
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:40 Page 212