Saga - 2012, Síða 213
Birna Lárusdóttir, MANNVIST. SÝNISBÓK ÍSLENSKRA FORNLEIFA
(aðrir höfundar Adolf Friðriksson, Árni Hjartarson, Bjarni F. Einarsson,
Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Guðmundur J. Guðmundsson, Orri Vésteins -
son og Þóra Pétursdóttir). Opna. Reykjavík 2011. 470 bls. Myndir, kort,
örnefna- og atriðisorðaskrár.
Bókin Mannvist eftir Birnu Lárusdóttur fjallar um íslenskar fornleifar í
víðum skilningi og er fyrst og fremst hugsuð fyrir almenning.
Með bók sinni vill Birna kynna íslenskar fornleifar í nýju og víðara ljósi
en gert hefur verið hingað til og sýna hve fjölbreyttar þær eru. Auk þess er
markmið hennar að fjalla um mismunandi gerðir íslenskra fornleifa á
aðgengilegan hátt og kynna fyrir almenningi afrakstur þeirra fornleifarann-
sókna sem fram hafa farið á Íslandi undanfarna tvo áratugi. Frekar en að
einblína á þekkta sögustaði og valdamiðstöðvar beinir Birna sjónum sínum
að minjum sem hafa löngum hlotið minni athygli, minjum sem tengjast
skepnuhaldi, samgöngum og fiskveiðum.
Mannvist hefur þegar hlotið lofsamlega dóma í fjölmiðlum og fært Birnu
Lárusdóttur bókmenntaverðlaun kvenna, Fjöruverðlaunin, í flokki fræði -
bóka. Þá var hún einnig tilnefnd til viðurkenningar Hagþenkis, félags höf-
unda fræðibóka og kennslugagna. Það má því segja að markmið bókarinn-
ar, að kveikja áhuga almennings og vekja umræðu um fornleifar og forn-
leifarannsóknir á Íslandi, hafi þegar náðst.
Bókinni er skipt upp í 32 kafla sem fjalla um einn minjaflokk í senn
undir einföldum titlum svo sem „Fjós“, „Kuml“, „Bæjarhólar“ og „Ný -
minjar“. Hver kafli stendur sjálfstætt svo hægt er að grípa niður í bókina
eftir áhuga. Þeim minjaflokki sem til umfjöllunar er hverju sinni eru gerð
góð skil í texta og með myndum. Efni úr samtímaheimildum, mest frá 19.
og 20. öld, um viðkomandi minjaflokk er fléttað inn í textann og til að gefa
fyllri mynd af minjastöðunum og upphaflegu hlutverki þeirra. Ítarefnis-
dálkar eru notaðir til að fjalla um afmörkuð efni, svo sem starfsemi í klaustr-
um eða einstakar fornleifarannsóknir. Það heppnast vel að brjóta upp text-
ann með þeim án þess að fjarlægjast um of meginumfjöllunarefni hvers
kafla.
Höfundur leggur mikla áherslu á að fjalla ekki bara um niðurstöður
fornleifauppgrafta heldur nýtir sér einnig þau gögn sem safnað hefur verið
í fornleifaskráningu undanfarna tvo áratugi og tekst það vel. Yfir 130
þúsund fornleifar hafa verið skráðar á Íslandi eftir að fornleifaskráning varð
hluti af skipulagsgerð og umhverfismati á tíunda áratugnum. Birna hefur
þar einstaklega góða yfirsýn, enda hefur hún sjálf skráð mikinn fjölda
íslenskra fornleifa á vettvangi. Með þessari nálgun tekst henni að sýna
glöggt hve fornleifafræði er fjölbreytt fræðigrein og hve nálgast má fortíðina
á margvíslegan hátt.
ritdómar 213
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:40 Page 213