Saga - 2012, Page 218
staða og gerir „andlegt ferðalag“ Haralds áhugaverðara en ella. Auðvitað er
þessi hugmyndasögulega vegferð hans fléttuð saman við ævisögulegt efni
í víðari skilningi. Í þeim köflum nálgast verkið á stundum að vera „existen-
síel“ eða sálfræðileg ævisaga. Eðli verksins sem hugmyndasögulegrar ævi-
sögu er þó nokkuð skýrt og kemur fram á frjóan máta í lokakaflanum, þar
sem n.k. niðurstöður eru dregnar af ævisögunni í heild og guðfræði Haralds
sett fram á heildstæðan hátt.
Höfundur byggir á persónulegum heimildum frá Haraldi í ríkum mæli
og hefur m.a. haft aðgang að gögnum sem enn eru í umsjón ættarinnar.
Þetta er ómetanlegt. Þá byggir hann einnig á viðtölum, m.a. við son Haralds
sem einnig las yfir verkið á ýmsum stigum. Hér er því um ævisögu að ræða
sem unnin er að meira eða minna leyti í umboði ættingja. Það vekur athygli
að þrátt fyrir þetta fegrar höfundur ekki sögupersónu sína heldur segir á
henni kost og löst. Koma þar líklega bæði til fræðilegir burðir höfundar og
víðsýni ættingjanna, sem hafa viljað hafa það sem sannara reyndist. Sá
Haraldur sem við kynnumst í sögunni er því ekki upphafin persóna, heldur
eru veikleikar hans dregnir fram ekki síður en styrkleikarnir. Stundum
virðist manni höfundur þekkja sögupersónu sína býsna vel. Þar saknar les-
andi þó oft tilvísana til heimilda þannig að mögulegt sé að sannreyna
myndina eða vinna hana áfram. Þarna er líklega byggt á minningum ættar-
innar (sonarins) og hugsanlega erfitt að vísa í því sambandi til ákveðins
viðtals. Sums staðar verður þetta þó æði tilfinnanlegur vandi. Á bls. 207
dregur höfundur upp dramatíska mynd af trúarbaráttu Haralds (um 1905),
sem hann telur að hafi leitt til breytingar á guðsmynd hans. Þar er m.a. gert
mikið úr uppgjöri, örvæntingu og vonleysi. Lýsingin er nærgöngul og í
nútíð. Ekki er þó vísað til neinna heimilda. Þvert á móti er tekið fram að
„beinar lýsingar“ fyrirfinnist ekki og loks vísað til almennra ummæla Einars
H. Kvaran við útför Haralds. Þarna, í ákveðinni þungamiðju verksins,
virðist höfundur hafa gengið of langt í túlkun sinni.
Þegar vikið er að veikleikum Haralds, og þar með persónu hans, er
skammt yfir í einkamálin — þar á meðal hjúskaparmálin. Í þeim hlutum
sögunnar sem fjalla um tvö hjónabönd Haralds, og jafnvel fjölskyldulíf að
öðru leyti, hefði verkið grætt á því að höfundur hefði gengið út frá kynja -
fræðilegu sjónarhorni. Haraldur gekk að eiga fyrri konu sína, Bergljótu
Sigurðardóttur (1879–1915) prófastsdóttur úr Stykkishólmi, aldamótaárið
1900. Hún var rúmum áratug yngri en hann og í aðdraganda hjónabands-
ins liggur við að fram hafi farið samningar væntanlegra tengdafeðga, sem
einkum lutu að lokakaflanum í uppeldi Bergljótar. Þar krafðist Haraldur
þess m.a. að hún lærði á orgel, sem hún taldi með leiðinlegustu hljóðfærum.
Sjálfur frestaði Haraldur brúðkaupinu svo um ár og hélt utan til framhalds-
náms. Auðvitað var Haraldur í þessu, eins og svo mörgu öðru, barn síns
tíma. Það hefði þó aukið gildi verksins að draga betur fram ólíka stöðu kynj-
anna við upphaf hjúskapar, sem hélst lítt breytt allt fram á 20. öld. Kynjaða
ritdómar218
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:40 Page 218