Saga - 2012, Page 226
og þá einkum þeirri skoðun þeirra að hann muni að verulega leyti hvíla á
munnlegum heimildum. Bendir höfundur á ýmsa þætti sem bendi til ann-
ars, þ.á m. þekkingu höfundar á tímatali, mælskufræðilegan stíl textans og
ekki síst hvernig tekið er á réttarfari og útreikningum í þættinum. Hér skipta
rannsóknir höfundar á Grágás verulegu máli, og að því leyti er tenging á
milli þessarar ritgerðar og þeirrar fyrstu. Niðurstaðan er sú að þátturinn
hvíli mun fremur á rituðum heimildum en munnlegum, og er hún studd
margvíslegum rökum af þessu tagi. Einstaka sinnum þykir mér höfundur
of ályktanaglaður, t.d. þegar hann telur að „íslensk sjálfsvitund“ endur-
speglist í því hvernig rætt er um „austmenn“, „norræna menn“, „kaup-
menn“ og „landsmenn“ á Grænlandi (bls. 143). Hér eru á ferð svo hárfín
blæ brigði að undirritaður kemur alls ekki auga á þau. Vel má þó fallast á
önnur rök fyrir því að þátturinn sé saminn á Íslandi, og sú tilgáta að þar hafi
verið á ferð sonur Hermundar Koðránssonar er ekkert verri en hver önnur
(bls. 160).
Enda þótt efni ritgerðanna skarist að einhverju leyti er hér á ferð greina-
safn frekar en einefnisrit (mónógrafía) og því vandkvæðum bundið að
leggja heildstætt mat á það. Almennt séð hvíla ritgerðirnar á traustum
grunni klassískrar textafræði, eins og hún hefur verið stunduð síðan á 19.
öld, en eitt hefur þó breyst: Leit sagnfræðinga að upprunatexta ritaðra heim-
ilda nemur staðar þar en gerir ekki lengur tilkall til að vísa til sjálfs atburðar-
ins eða veruleika hans. Að því leyti hvíla rannsóknir Sveinbjarnar á traustum
grunni fræðilegrar vísindahyggju, eins og hún var stunduð af fræðimönn-
um á borð við Lauritz Weibull í upphafi 20. aldar, en á Íslandi hefur t.d.
Ólafía Einarsdóttir verið merkisberi þessarar rannsóknarhefðar. Á seinustu
áratugum hafa aðrir straumar, svo sem hugarfarssaga, ef til vill haft meiri
áhrif á rannsóknir íslenskra miðaldasagnfræðinga, en hin sígilda nálgun
mun þó seint verða úrelt þar sem hún tekst á við áleitin vandamál sem
hverfa ekki.
Sverrir Jakobsson
ritdómar226
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:40 Page 226