Saga - 2012, Page 230
Þegar fjallað er um Napóleon vilja hernaðarafrek hans, oftar en ekki,
varpa skugga á sitthvað annað sem hann tók sér fyrir hendur og var mun
þarflegra, svo sem þær miklu umbætur sem hann beitti sér fyrir á stjórnkerfi
Frakklands en sumar þeirra hafa haldið gildi sínu allt fram á okkar daga.
Lindqvist gerir þessum þáttum sæmileg skil þótt reyndar hefði mátt fjalla
nánar um ýmislegt í því sambandi, svo sem lögbókina miklu Code Civil de
France, eða Code Napóleon eins og hún er stundum kölluð í daglegu tali.
Sjálfur sagði Napóleon um lögbókina að þegar öll hernaðarafrek hans yrðu
gleymd þá myndu menn muna eftir lögbókinni. Einnig er vert að benda á
þær miklu umbætur sem Napóleon beitti sér fyrir í Egyptalandi þau miss-
eri sem Frakkar höfðu landið á valdi sínu.
Lindqvist gerir líka vel í því að slá á þá firru, sem stundum skýtur upp
kollinum, að Napóleon sé á einhvern hátt sambærilegur við þá Hitler og
Stalín. Napóleon var vissulega einvaldur, en einræði hans í Frakklandi var
ekkert í líkingu við morðræði hinna tveggja; til dæmis verður seint sagt að
Napóleon hafi verið langrækinn maður eða hefnigjarn. Höfundur bendir
líka á að á valdatíma Napóleons voru Frakkar um margt frjálsari og bjuggu
við réttlátara stjórnarfar en flestir aðrir íbúar Evrópu, íbúar Bretlandseyja
meðtaldir. Auk þess hrekur hann markvisst ýmsar missagnir sem verið hafa
á kreiki um Napóleon, sem sumar hverjar að minnsta kosti eiga uppruna
sinn í áróðri Englendinga gegn honum.
Umfjöllun um Napóleon hefur á undanförnum áratugum mótast um of
af engilsaxneskum viðhorfum, eins og reyndar flest það sem viðkemur sögu
síðari alda. Það er vel að bók Lindqvist slær á þennan viðhorfahalla, þótt
óhjákvæmilega verði sænskt sjónarhorn á atburðina áberandi, svo sem það
mikla pláss sem Jean Baptiste Bernadotte og uppátæki hans fá, enda er hann
ættfaðir sænsku konungsættarinnar. Stundum vill og brenna við að spunnir
séu bláþræðir þegar Svíar koma við sögu, svo sem þegar fjallað er um
árangurslausan fund þeirra von Fernsens og Napóleons á nokkrum blað -
síðum og sagt frá sænsku Jóhannesarreglunni í sambandi við hertöku
Möltu. Ekkert af þessu er þó til lýta, en sumu hefði mátt sleppa eða draga
saman og stytta.
Í ævisögum er eðlilegt að nokkuð sé dvalið sé við einkalíf söguhetjunn-
ar og því gerð sæmileg skil því auðvitað hafa aðstæður í einkalífinu áhrif á
athafnir og ákvarðanir valdamanna. Í þessari bók er þó á stundum fullmikið
af slíku; birtir eru bútar úr bréfum Napóleons, eiginkvenna hans og ást-
meyja sem oft bæta litlu við skilning lesandans á aðburðarrásinni. Þetta er
þó auðvitað smekksatriði. Hins vegar eru kaflarnir um heimilislíf Napó -
leons og fjölskyldu hans fróðlegir og upplýsandi.
Styrjaldir og stjórnmálabrölt Napóleons eru eins og gefur að skilja fyrir-
ferðarmesti þáttur bókarinnar. Þar er margt vel gert, frásögnin yfirleitt skýr
og lifandi og þróun mála greind. Ýmislegt kemur líka á óvart varðandi inn-
rás Napóleons í Rússland árið 1812. Þar má nefna að Napóleon ætlaði sér
ritdómar230
Saga vor 2012_Saga haust 2004 - NOTA 10.5.2012 12:40 Page 230