Breiðfirðingur - 01.04.1950, Blaðsíða 20
18
BREIÐFIRÐINGUR
argarðinn brunar bíll áleiðis austur Tryggvagötu. Innan til á
Hverfisgötunni nemar hann staðar hjá stóru, gömlu húsi. Ut
úr honum stíga karlmaður og kvenmaður. Karlmaðurinn er í
ferðafötum, eins og notuð eru vetrardag í sveit: Stormjakki,
reiðbuxur, leðurstígvél, skinnhúfa. Konan er í fallegri brúnni
loðskinnskápu.
Bíllinn snýr við. Þau ganga upp tröppurnar og konan hring-
ir útidyrabjöllu. Fölleit vinnustúlka með kuldaroða á höndum
lýkur upp. „Góðan daginn.“ segir aðkomukonan. „Býr hér lierra
Þorsteinn Bjarnason, stud. jur.“
„Já,“ svarar stúlkan, „en hann er ekki kominn á fætur. I gær
var fyrsti desember,“ bætti hún við, eins og til skýringar á því,
að Þorsteinn svæfi enn.
„Gerir ekkert til. Við komum inn. Held honum sé mál að
vakna, komið um eða yfir hádegi. Eg er bróðir hans, Jón Bjarna-
son,“ segir karlmaðurinn úr bílnum.
„Gerið þá svo vel,“ segir stúlkan. „Herbergisdyrnar eru hérna
inni í ganginum.“
Þau fara inn og berja að dyrum. Ekkert svar. Samt heyra þau
þrusk nokkurt inni. Það hljóðnar og aftur kveður Jón dyra og
segir: „Halló, það er Jón. Viltu gera svo vel að opna. Nú opnast
hurðin með hægð og í dyrunum birtist Þorsteinn hálfklæddur.
Skuggsýnt var í herberginu, því að gluggatjöldin höfðu ekki ver-
ið dregin frá.
„Sæll vertu, þú hefir líklega ekki búizt við að sjá okkur hérna
núna. Ég þurfti að bregða mér í bæinn, en þarf að vera kominn
heim fyrir jól. Anna ætlar að dvelja hér hjá kunningjum og skyld-
fólki fram yfir hátíðarnar.“
„Nei komið þið sæl, þið eruð ekki að gera boð á undan ykkur.
Það er varla, að ég geti boðið ykkur sæti. Hér er nefnilega allt á
öðrum endanum. Ég var auðvitað á „Borginni" í nótt. Hvað
segið þið annars í fréttum úr sveitinni?“ Og Þorsteinn reynir að
gera sem minnst úr fátinu, sem á hann kom.
Jón gengur inn í herbergið. Anna hikandi á eftir. Það er stórt
og rúmgott með hægindastólum, reykborði, skrifborði, dívan