Tímarit Máls og menningar - 01.10.2016, Qupperneq 36
S t e i n a r B r a g i
36 TMM 2016 · 3
Hann sneri sér aftur að tölvunni og virtist annars hugar. – En læknar eru
leikarar, hefur mér sýnst, svona að helmingi allavega; ég held þeir vantreysti
yfirleitt gáfnafari fólks og spurningum þess um eigin líkama og finni sig
knúna til að hughreysta það frekar en tala við það. „Hvað áttu við?“ spurði
hann.
„Þetta sýni sem var tekið úr mér, það hefur verið í geymslu í hvað, átta ár,“
sagði ég. „Hvernig geymið þið svona?“
„Sæði er geymt við mínus 130 gráður í fljótandi vetni.“
„Vá, svona kalt,“ sagði ég og gat betur skilið að upphæðin hlypi á ein-
hverjum þúsundköllum á ári. Ekki að ég ætlaði að borga það samt. En ef
sæðið í mér væri ónýtt hefði ég ekki val um annað – nema ég ætlaði mér
aldrei að eignast börn. Mig langaði ekkert sérstaklega í börn en hver veit
nema það breyttist. „Ef þessi talning er í lagi og þið þurfið ekki að geyma
sýnið lengur, hvað gerið þið við það? Fer það í ruslið?“
Mér varð hugsað til ættingja sem vildi láta brenna sig. Og datt svo ofan
í gamlar, sjúklegar hugrenningar um hvað hefði orðið um gamla, sjúka líf-
færið sem var tekið úr mér með skurðaðgerð. Hvert fór það? Sýnið fór í kæli
en hvert fór líffærið?
„Sýnið er brennt,“ sagði læknirinn og gerði sér far um að horfa á mig, lék
sig fullan af umhyggju þótt hann hefði eflaust látið brenna þúsundir lítra af
sæði og væri slétt sama um það allt, enda bara afgangsfrumur fyrir honum.
Læknirinn hét einhverju nafni, það stóð á hurðinni og hann kynnti sig þegar
við heilsuðumst en þannig er það með lækna, maður man ekki nafnið á þeim
fyrr en eftir tíu ár af heimsóknum í Domus Medica. Maður vill ekki þekkja
þá, læknar eru það síðasta sem maður sér áður en maður drepst. „Það er sér-
stök deild hérna innan spítalans sem sér um förgun lífrænna efna.“
Ég reyndi að rifja upp magn sýnisins, ætli það hafi ekki verið á stærð við
matskeið. – Ein lítil matskeið, hugsaði ég og sá fyrir mér mann að stinga
henni inn í ofn, viðhafa eitthvað sérstakt prótókól til förgunar; frekar en
að sturta sýninu bara niður í klósett eða finna körfu fulla af lökum á leið
í þvottavél á spítalanum og skvetta því þar yfir. Var líklegt að sýnið yrði
brennt? Ég vann eitt sumar í Lyfjaverslun ríkisins og keyrði út lyf á spítalana,
allir sem ég hitti voru undir þrítugu og héngu úti í sígarettupásum, ég gat
ekki ímyndað mér að svona sýni yrði tekið alvarlega og að einhver léti aka
því í skemmu á Suðurnesjum þar sem maður í sloppi kveikti upp í ofni.
– Hvað sem læknirinn sagði yrði því áreiðanlega fleygt beint í ruslið og allt
annað var lygi, ég var ekki að biðja um kistulagningu og athöfn hjá presti en
samt, tilhugsunin var óþægileg.
„Við þurfum annað sýni frá þér,“ sagði hann og sýndi á sér fararsnið, eða
mér öllu heldur. Læknar gera það með því að setjast snöggt upp í stólnum
og halla sér fram, skrifa upp á resept en í þessu tilviki opnaði hann skúffu,
sótti ofan í hana litla gagnsæja dollu með rauðu loki og rétti mér. „Hafðu