Hugur - 01.01.2014, Side 6
6
þess að lífsiðfræðin þurfi að víkka sjónarhorn sitt, og fræðimenn á sviðinu hafi
orðið of nærsýnir ef svo má að orði komast.
Henry Alexander kemst að svipaðri niðurstöðu, þó að leið hans þangað liggi um
svolítið aðrar veiðilendur. Grein hans er tilraun til að beita ákveðinni nálgun við
siðferðilega greiningu. Viðfangsefnið er skotveiðar á spendýrum. Nálgun Henrys
einkennist af greiningu á rökum og röksemdafærslum sem finna má í orðræðu og
viðhorfum ólíkra aðila til viðfangsefnisins. Líkt og Vilhjálmur kemst Henry að
þeirri niðurstöðu að samband hagnýttrar siðfræði og siðfræðikenninga geti verið
vandkvæðum bundið, og að hagnýtt siðfræði verði að hafa vítt sjónarhorn, og
megi ekki festast í eigin orðaforða eða eigin hugtakanotkun.
Svavar Hrafn Svavarsson nálgast þetta sama efni frá öðru sjónarhorni. Grein
hans um hagnýtta siðfræði og fornöldina hverfist um gjána á milli ástundunar
heimspeki annarsvegar og lífsins eða heimsins hinsvegar. Í fornöld var ekki um
neina slíka gjá að ræða, þar sem það var náttúrulegur hluti þess að aðhyllast (eða
stunda) ákveðna heimspekistefnu að lifa hana, og siðfræði var því í raun öll
hagnýtt siðfræði. Þessu er ekki svona farið í dag. Í dag er ákveðin gjá milli sið-
fræðikenninga og þess lífs sem þær hafa að viðfangsefni, og hagnýtt siðfræði er
einmitt tilraun til að brúa þessa gjá. Það er ekki þannig að við getum horfið aftur
til sama ástands og var í Grikklandi til forna, til þess er raunveruleiki samtím-
ans of frábrugðinn raunveruleika þess tíma. Umfjöllun Svavars um gjána á milli
siðfræði eða heimspeki annarsvegar og lífsins hinsvegar rímar mjög vel við nið-
urstöður þeirra Vilhjálms og Henrys er lúta að hnökrum á tengslum kenningar
og veruleika, og að nærsýni heimspekinnar.
Eitt af því sem grein Svavars vekur mann til umhugsunar um, er það hvers-
lags einstaklinga siðfræðikenningar eiga að ná til. Hver er mannskilningur sið-
fræðikenninga? Eða hver eru tengsl kennisetningar og lífs (sem virðist um margt
vera sama spurningin)? Þó að umfjöllunarefnið sé í raun annað, ganga spurningar
um það hvernig hugmyndir um einstaklinginn samrímist ákveðnum siðfræði-
kenningum eins og rauður þráður í gegnum grein Gústavs Adolfs Bergmanns
Sigurbjörnssonar. Því hefur oft verið haldið fram um ólíkar kenningar innan sið-
fræðinnar að þær séu ágætar sem slíkar en eigi einfaldlega ekki við einstaklinga af
holdi og blóði. Umhyggjusiðfræðin er í ákveðnum skilningi tilraun til að búa til
siðfræði þar sem einstaklingurinn sem tengslavera, og sem þátttakandi í tilfinn-
ingalegum samböndum, er í forgrunni. Hvaða skilning eigi að leggja í umhyggju-
hugtakið, og hvar eigi að staðsetja það gagnvart öðrum hugtökum í siðfræðilegum
kenningum, er hinsvegar ekki einfalt mál.
Ein forsenda þess að geta fjallað um siðferðileg álitamál, og kosti og galla
ákveðinna kenninga innan siðfræðinnar, er að hafa mynd af því landslagi sem
kenningar og hugtök spretta uppúr og eiga rætur í. Grein Sigurjóns Árna Eyjólfs-
sonar gefur greinargóða mynd af ákveðnum hluta landslagsins, það er, þeim hluta
sem inniheldur femínískar kenningar. Það er þó aðeins nokkurskonar aukaafurð;
greinin er tilraun til þess að skýra og varpa ljósi á tengsl milli þessara kenninga og
kenninga innan guðfræði samtímans.
Hagnýting siðfræði hefur alltaf verið tengd heilbrigðisvísindum sterkum bönd-
Inngangur ritstjóra
Hugur 2014-5.indd 6 19/01/2015 15:09:30