Hugur - 01.01.2014, Page 10
10 Ólafur Páll Jónsson ræðir við Gunnar Ragnarsson
Ég er alinn upp við utanbókarnám. Maður átti að læra textann í námsbókinni sem
kennarinn setti fyrir og geta endursagt hann eða þulið í kennslustundinni, helst
orðrétt, eins og kvæði voru lærð og þulin. Kennslan var því að miklu leyti yfir-
heyrsla. Það tók mig langan tíma að losna við þessa afstöðu til náms. Mér er nær
að halda að ég hafi ekki losnað við hana til fulls fyrr en ég var kominn í háskóla.
Fór smám saman að gera mér ljóst að útilokað væri að leggja allar námsbækur á
minnið! – Í sambandi við utanbókarlærdóminn rifjast upp fyrir mér það sem John
Dewey segir um þessa hefðbundnu kennsluaðferð í bókinni Hugsun og menntun.
Það er efnislega á þessa leið: Kennarinn setur nemendum fyrir, þeir eiga að læra
lexíuna heima hjá sér eða í sérstökum lestímum og endursegja hana eða þylja fyrir
kennarann. Enda kallar hann kennslustundina „recitation“ sem þýðir endursögn.
Eins og frægt er gerði Dewey uppreisn gegn þessari kennsluaðferð.
Það er nokkuð löng leið úr Lokinhamradal til Edinborgar og ekki síður frá sjóróðrum
á Vestfjarðamiðum til heimspekináms í skoskri akademíu og því spyr ég Gunnar að því
hvernig fjölskyldu og vinum hans hafi litist á að hann væri að læra heimspeki. Hann
svarar því til að hann muni ekki til þess að nokkur hafi yfirleitt skipt sér af því hvað
hann lærði.
Ég fór í kvöldskóla á Þingeyri seinni hluta vetrar árið sem ég fermdist, og þá
hlustaði ég á Sigurð Nordal þegar hann flutti fyrirlestrana um líf og dauða í
útvarpinu. Ég var til húsa hjá skólastjóra barnaskólans, Ólafi Ólafssyni. Hann sat
alveg límdur við útvarpið þegar Sigurður var að tala. Þetta voru auðvitað fyrstu
kynni mín af Sigurði Nordal en ég hef þá eflaust lítið botnað í því sem hann var að
segja! Löngu seinna átti ég eftir að lesa mikið eftir hann. Ég hef alltaf haft miklar
mætur á þessum stórmerka fræðimanni og hugsuði, og ágæta rithöfundi. – Og
svo var annar maður, Guðmundur Finnbogason. Ég hef oft hugsað um að það sé
eiginlega skömm að á bók Guðmundar Lýðmenntun var ekki minnst í Kennara-
skólanum, ef ég man rétt. Ég uppgötvaði hana ekki fyrr en löngu seinna, líklega
ekki fyrr en hún kom út í annað sinn hjá Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla
Íslands, rúmum níu áratugum eftir að hún kom fyrst út. Þarna var heill kafli sem
fjallaði bara um hvað menntun eiginlega væri. Það er athyglisvert að Guðmundur
notar orðið menntun en ekki uppeldi um fræðsluna því að uppeldi, uppeldisfræði
og uppeldisfræðingur hafa verið lykilorð í allri orðræðu um kennslu og skólastarf
til skamms tíma.
Síðan fór ég í Héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði, sautján ára, af því að mig lang-
aði til að læra. Námsáhuginn mun hafa vaknað í tengslum við tungumálakennslu
í Ríkisútvarpinu. Útvarpskennslan var stórkostlegt fyrirbæri! Eftir einn vetur á
Núpi fór ég í Kennaraskólann, sennilega vegna þess að ég hafði verið látinn kenna
yngri systkinum mínum og hafði líka dálitla reynslu af kennslu þar fyrir utan, því
faðir minn sendi mig til að kenna tveim ungum telpum á sveitabæ innst í Arnar-
firði, að beiðni föður telpnanna. Það var veturinn áður en ég fór í Núpsskóla. Ég
hef þá líklega hugsað mér að verða barnakennari.
Gunnar tók kennarapróf í Kennaraskóla Íslands eftir þriggja vetra nám en að því
Hugur 2014-5.indd 10 19/01/2015 15:09:30