Hugur - 01.01.2014, Page 16
16 Ólafur Páll Jónsson ræðir við Gunnar Ragnarsson
Gunnar bætir svo við að eftir á að hyggja hefði bókin átt að heita Samræður um
náttúrleg trúarbrögð „því að Hume er að fjalla um og gagnrýna þau rök fyrir tilveru
Guðs sem kölluð eru á ensku „the argument from design“ og heita „skipulagsrök“ í þýð-
ingunni. Sú skoðun eða trú hafði lengi verið ríkjandi að náttúran bæri það með sér að
heimurinn væri sköpunarverk Guðs: þess vegna náttúrleg trúarbrögð. – Nú mundi ég
trúlega kalla þetta „hönnunarrök“ en orðið hönnun var þá ekki komið í tísku.“
Af öðrum þýðingum Gunnars má nefna Nytjastefnuna eftir John Stuart Mill, safn
greina eftir Karl Popper, Ský og klukkur, og samræðubók Bryans Magee, Miklir
heimspekingar. En af verkum einstakra heimspekinga eru þýðingar á ritum Deweys
fyrirferðarmestar. Það var Jónas Pálsson, skólastjóri Æfingaskólans og síðar rektor
Kennaraháskólans, sem upphaflega bað Gunnar um að þýða bókina Experience and
Education. Gunnar gerði tilraun til að þýða bókina þegar hann var enn skólastjóri í
Bolungarvík en var alls ekki ánægður með útkomuna.
Þótt ég hafi ekki komið almennilegu sköpulagi á þýðinguna þá fékk ég svo mik-
inn áhuga á menntunarheimspeki Deweys síðustu árin í Bolungarvík að ég lauk
skólastjórnarferli mínum þar með því að sækja um orlof til að ganga frá þýðingu
á Reynslu og menntun og skrifa eitthvað um hugmyndir hans. Mér var orðið ljóst
að til að geta komið texta eftir Dewey á læsilega íslensku þyrfti ég að kynna mér
betur heimspeki hans og fór því til Carbondale í Illinois-ríki í Bandaríkjunum
þar sem er Center for Dewey Studies. Og til að átta mig betur á hugmyndum
Deweys þýddi ég bókina How We Think sem heitir á íslensku Hugsun og menntun.
Í þeirri bók er ágæt kynning á þeirri tegund hugsunar sem Dewey kallar reflective
thinking og er í þýðingunni kölluð ígrunduð hugsun. Einnig mætti kalla þetta
rannsakandi hugsun því að í Rökfræði sinni notar Dewey inquiry í sömu merkingu
og reflective thinking. Það er athyglisvert að hann notar ekki orðið critical. Ég held
það komi bara einu sinni fyrir í fyrrnefndu bókinni.
Fyrir utan þær þýðingar sem hér er getið hefur Gunnar þýtt fjöldann allan af greinum
sem birst hafa á Heimspekivefnum og í Hug. Þar má t.d. nefna grein Gilberts Ryle um
Wittgenstein, „Menntun tilfinninganna“ eftir John Macmurray, „Stöðvið allar klukk-
urnar“ eftir Julian Baggini, samræðu Bryans Magee við Bernard Williams „Töfrar
málspekinnar“ og samræðu hans við William Barrett „Heidegger og nútíma tilvist-
arstefna“, ritgerðina „Hversvegna?“ eftir Paul Edwards og útdrátt Humes úr Ritgerð
um manneðlið. Greinarnar eru vel á þriðja tuginn og af ólíku tagi eins og sjá má af
þessari upptalningu.
Áhrifavaldar
Af ferli Gunnars er ljóst að hann hefur haft áhuga á mörgum heimspekingum gegnum
tíðina:
John Macmurray er sá fyrsti sem ég fékk áhuga á og las mikið árum saman.
David Hume og Immanuel Kant sökkti ég mér niður í á námsárunum og hef
haldið tryggð við þá báða síðan. Ég fékk fljótlega mikinn áhuga á þekkingarfræði
Hugur 2014-5.indd 16 19/01/2015 15:09:30