Hugur - 01.01.2014, Side 17
Uppreisn gegn hefðinni 17
þeirra í framhaldi af glímunni við þekkingarfræði Descartes, sem ég hef reyndar
aldrei verið hrifinn af. Cogito-rökfærslan í Hugleiðingum um frumspeki er að vísu
bráðsnjöll en útkoman varð afdrifarík fyrir þá heimspeki sem hann var að leggja
grunninn að. Vélhyggja hans um efnisheiminn, sem útrýmir lífinu, olli honum
miklum vandræðum í sambandi við líkamann því að samkvæmt henni er lík-
aminn líka vél. Hugur og líkami eru af tveimur heimum. Þessi tvíhyggja hefur
verið býsna langlíf í heimspekinni og verið lofuð af sumum en löstuð og skrum-
skæld af öðrum, sbr. „drauginn í vélinni“ hjá Ryle. Merkir hugsuðir hafa gagnrýnt
kartesísku afstöðuna, hina heimspekilegu arfleifð Descartes, og reynt að „komast
út úr Descartes“ ef svo má segja, t.d. Heidegger, Wittgenstein og bandarísku
pragmatistarnir.
Um tíma reyndi ég að komast til botns í Siðfræði Spinoza. Mér hefur alltaf
fundist eitthvað heillandi við verundareinhyggju hans. Hins vegar hef ég aldrei
náð nema takmörkuðu skilningssambandi við mónöðufræði Leibniz! Líta má
á hin torskiljanlegu frumspekikerfi þessara tveggja heimspekinga sem einhvers
konar andsvar við tveggja verunda kerfi Descartes.
Bertrand Russell var lengi framan af undir, yfir og allt um kring í heimspeki-
náminu. Ég las oftar en einu sinni The Problems of Philosophy, þar sem þekk-
ingarfræðin er í öndvegi. Russell hefur það ekki síst sér til ágætis að vera skýr!
Og löngu seinna uppgötvaði ég Alfred N. Whitehead og fannst lífhyggja hans
eða ferlishyggja (e. philosophy of organism) tímabært andsvar við vélhyggjunni sem
Descartes innleiddi í nútímaheimspeki. Því miður er Whitehead afar torskilinn á
köflum og er ég þá einkum með Process and Reality í huga. Þá höfðaði söguhyggja
R. G. Collingwoods töluvert til mín um langt skeið og ég las mikið eftir hann.
Hann er frumlegur heimspekingur og ágætur rithöfundur en hefur ekki komist
inn í meginstraum breskrar heimspeki frekar en Macmurray. Um nokkurra ára
skeið hélt ég mikið upp á bækur hans The Idea of History og sjálfsævisöguna, An
Autobiography.
Á Platoni fékk ég mikinn áhuga þegar ég kenndi heimspeki við Menntaskólann
á Ísafirði, enda notaði ég nokkrar samræður hans í kennslunni. Frummyndakenn-
ing hans er furðuleg hugsmíð og hefur verið ótrúlega lífseig í vestrænni heim-
spekihefð. Er hún ekki undirstaða hughyggjunnar sem hefur nánast tröllriðið
vestrænni heimspeki? – Leiðin upp úr hellinum í átt til frummyndaheimsins!
Ég fór að kynna mér vísindaheimspeki Poppers á miðjum aldri eftir að hafa
lesið litla bók um kenningar hans eftir Bryan Magee. Og svo þýddi ég nokkrar
greinar eftir hann sem birtust í bókinni Ský og klukkur. Í sambandi við Popper er
kannski rétt að geta þess að á námsárunum í Edinborg las ég The Open Society and
its Enemies en kunni ekki að meta það verk að verðleikum fyrr en löngu seinna.
Popper er að mínum dómi einhver mesti rökfærslumeistari í vestrænni heim-
speki – og ekki skortir skýrleikann. Hvað sem hæft kann að vera í hinni alræmdu
og umdeildu hrekjanleikakenningu hans og afneitun aðleiðslu í raunvísindum þá
beitir hann „problem-solving“-aðferð sinni af mikilli snilld.
Fyrir utan Popper hefur John Dewey verið í uppáhaldi hjá mér síðasta aldar-
fjórðunginn. Aðallega hef ég fengist við skrif hans um nám og kennslu, menntun
Hugur 2014-5.indd 17 19/01/2015 15:09:30