Hugur - 01.01.2014, Side 20
20 Ólafur Páll Jónsson ræðir við Gunnar Ragnarsson
umhverfi en í „áhorfsheimspekinni“ er ekkert umhverfi í venjulegum skilningi.
Og reynsluhugtak Deweys er virkt – það er okkar reynsluhugtak líka: að hafa
reynslu af einhverju þýðir fyrst og fremst að hafa tekið virkan þátt í því – en ekki
óvirkt eins reynsluhugtak bresku raunhyggjunnar sem segja má að einskorðist við
skynjun. Einn bandarískur heimspekingur hefur meira að segja haldið því fram
að kenning Deweys um reynsluna sé ef til vill mesta framlag hans til heimspek-
innar. Hin mikla Rökfræði hans hefur undirtitilinn rannsóknarkenningin. Hann
vill ekki afbyggja hefðina heldur endurbyggja hana eða endursmíða. (Ein bók
hans heitir Reconstruction in Philosophy.) Hann hafnar leit að hinu eina, sem er
platonskt viðhorf, og föstum grunni, sem rekja má til Galileós, Descartes og ann-
arra upphafsmanna vísindabyltingarinnar. Og vitanlega er hann andsnúinn lík-
amsleysi vestrænnar heimspeki!
Í framhaldi af því sem kom fram hér á undan í tengslum við Nietzsche um
orðræðu í heimspeki og bókmenntum vil ég segja þetta. Vitanlega eru heimspeki-
skrif bókmenntir í einhverjum skilningi. Segja má að um tvenns konar heimspeki
sé að ræða, fræðilega, akademíska heimspeki annars vegar, það er heimspeki sem
fræðigrein, og hins vegar skrif sem eru til að mynda almennar hugleiðingar um
lífið og tilveruna, lífsskoðanir og lífsspeki, settar fram í lausu máli eða bundnu,
þar sem rök og röksemdafærsla eru kannski ekki aðalatriðið heldur hugmyndirn-
ar og skoðanirnar sjálfar. Skrif af síðarnefndu gerðinni eru heimspekilegar bók-
menntir en ekki heimspeki í strangasta skilningi sem tekur gagnrýna afstöðu til
allra skoðana. Heimspekin sem fræðigrein er reyndar orðin ákaflega tæknileg og
sérhæfð og lítt eða ekki skiljanleg öðrum en sérfræðingum í greininni. Og sú teg-
und orðræðu sem tíðkast hefur í hinni fræðilegu heimspeki allt frá dögum Plat-
ons er býsna frábrugðin orðræðu í skáldskap, sagnagerð og leikritun. En nú um
stundir virðist það viðhorf vera að ryðja sér til rúms að draga úr þessum mismun.
Þetta tengist svonefndum póstmódernisma – eflaust áhrif frá Nietzsche! – þar
sem er sterk tilhneiging til að efast um hlutlægni hugsunar og jafnvel neita því að
hlutlæg þekking sé til. „Ekkert fyrir utan textann!“ er haft eftir frægum póstmód-
ernískum heimspekingi. Afstæðishyggja er ríkjandi. Túlkun er lykilhugtak: Stað-
reyndir eru bara ákveðnar túlkanir. Segir ekki Nietzsche að allt sé túlkanir? Þetta
getur gengið út í öfgar. Eitt megineinkenni heimspekilegrar afstöðu er gagnrýni
– ekki síst á hvers kyns kreddur og goðsagnir – og ágreiningur um grundvallar-
viðhorf, til dæmis um raunhyggju og rökhyggju í þekkingarfræði, efnishyggju
og hughyggju í verufræði. Að ekki sé minnst á gagnrýni eins heimspekings á
kenningar annars og tilraunir til að hrekja þær. En þótt heimspekingar gagnrýni
og efist telja þeir alltént að hlutlæga þekkingu sé að finna og hægt sé að komast
að einhverjum sannleika á hinum ýmsu fræðasviðum. Að uppgötva sannleikann
um heiminn, sem er óendanlega flókinn, hefur reyndar verið eitt meginmarkmið
vestrænnar heimspeki frá upphafi. Og þótt mikinn sannleik sé að finna í mörgum
skáldverkum er það líklega sannleikur í annarri merkingu en sannleikurinn sem
heimspekin og vísindin leita. Sannleikshugtakið er ekki einfalt.
Höfuðeinkenni fræðilegrar heimspeki í hinum enskumælandi heimi í seinni tíð
hefur verið hugtakagreining og rökræða um merkingu og þar er margræðni illa
Hugur 2014-5.indd 20 19/01/2015 15:09:30