Hugur - 01.01.2014, Page 21
Uppreisn gegn hefðinni 21
séð. Allt skal vera skýrt og skiljanlegt! Þetta er sú tegund heimspeki sem kennd
er við rökgreiningu og málspeki þar sem segja má að merkingarhugtakið sé allt-
umlykjandi. Hins vegar er höfuðeinkenni bókmenntalegrar orðræðu frásögn og
lýsingar þar sem notað er myndmál, myndhverfingar og líkingar af öllu tagi sem
býður upp á margræðni og getur vísað í ótal áttir! Ekki svo að skilja að frum-
spekikerfin sem heimspekingar hafa sett saman í tímans rás séu laus við myndmál
og líkingar. Síður en svo. Það væri efni í langt mál!
Vitaskuld nota skáldsagnahöfundar, leikritaskáld og ljóðskáld heimspekileg-
ar hugmyndir og kenningar í sögum sínum, leikritum og ljóðum, og í mörgum
skáldverkum er heimspekilegt andrúmsloft ríkjandi, ef svo má að orði komast.
Heimspekileg hugsun er almenn og óhlutbundin þar sem aftur á móti skáldverk
einkennast af hinu sérstaka og einstaklingsbundna enda þótt þau hafi líka al-
menna skírskotun. Vonandi er einhver glóra í þessum hugleiðingum um efni sem
er býsna flókið ef grannt er skoðað og auðvelt að lenda úti í móa þegar farið er að
fjalla um það í einstökum atriðum!
Tími frumspekilegra kerfasmíða er liðinn. Rökgreining, rökfræðileg raun-
hyggja, málspeki og gríðarlegar framfarir á öllum sviðum raunvísinda og tækni
eiga eflaust mestan þátt í því. Forvígismenn rökfræðilegrar raunhyggju, sem ég
hef kallað staðreyndahyggju, Vínarhringsmennirnir á fjórða áratug síðustu aldar,
beindu gagnrýni sinni ekki síst gegn þýska rómantíska hughyggjuvaðlinum. Þeir
vildu útrýma allri frumspeki! Staðhæfingar, skoðanir og kenningar sem ekki væri
hægt að sannprófa með vísindalegum hætti kölluðu þeir merkingarlausar. Það er
nú ansi þröngur skilningur á merkingu. Sem betur fer tókst þetta ekki. En þessi
róttæka stefna vann mikið hreinsunarstarf enda þótt hún gengi út í öfgar.
Ég sagði hér áðan að heimspekin virtist stefna í margar ólíkar áttir. Hvað sem
því líður hlýtur samt gagnrýnin hugsun, þar sem almenn og altæk hugtök eru
greind, tilgátur og kenningar rökræddar út í hörgul, að halda áfram að vera helsta
kennimerki hennar.
Hugur 2014-5.indd 21 19/01/2015 15:09:31