Hugur - 01.01.2014, Page 27
Persónan og félagsskapurinn 27
háðar hvor annarri og sýna þarf fram á heild þeirra til þess að hægt sé að hugsa
um þær, líkt og réttar hugsanir geta ekki verið til í hugum manna ef ekki er hægt
að sýna fram á rangar hugsanir. Þess vegna telur Macmurray að nauðsynlegt sé að
geta gert ráð fyrir einingu sjálfsins, klofna sjálfið getur ekki sameinað andstæður
sínar.21
Persónan, lausn vandans
Til þess að leysa vanda tvíhyggjunnar um sjálfið sem annað hvort andlega ver-
und eða lífveru telur Macmurray að skilgreina þurfi það sem persónu. Sjálfið sem
persóna byggir á þeirri hugmynd að það eigi upphaf sitt í athöfninni en ekki
hugsuninni. Ef athöfnin er upphafið þarf ekki að kljúfa sjálfið. Sjálfið er aðeins
til í athöfninni og í heimi athafnarinnar, eins og áður sagði, og er því ekki klofið
í tvö mismunandi tilverustig. Hugsunin er einungis fylgifiskur athafnarinnar en
ekki annað tilverustig sjálfsins.22 Að skilgreina sjálfið sem persónu sem er aðeins
til í heimi athafnarinnar hefur einnig í för með sér að sjálfið er ávallt raungert í
tengslum við önnur sjálf. „Sjálfið er aðeins til sem meðlimur í „þér og mér“ en
ekki sem hinn einangraði „ég“.“ Hinn einangraði „ég“ er aðeins blekking og án
sambands við aðra erum við ekkert. Hér virðist Macmurray útiloka möguleika
einstaklingsins á því að framkvæma og lenda í sömu vandræðum og lífræna skil-
greiningin á sjálfinu með því að útiloka einstaklinga og þar með athöfnina.23
Hann telur þó að persónulega sjálfið geti gert ráð fyrir einstaklingum með
frjálsan vilja sem geti framkvæmt athafnir þrátt fyrir að hið persónulega sjálf sé
algjörlega háð öðrum sjálfum. Að breyta er samkvæmt Macmurray að beita frjáls-
um vilja til að ákvarða framtíðina. Sérhver einstaklingur hefur þennan eiginleika
þar sem framtíðin er ekki fyrirfram ákvörðuð heldur ákvarðast hún af athöfnum
einstaklinga. En þar sem sjálf manna er háð sjálfi annarra og þeim er ómögulegt
að raungera sjálfa sig nema með tilliti til annarra þá eru athafnir einstaklinga
háðar athöfnum annarra einstaklinga. Viljinn er ekki algjörlega frjáls en samt
sem áður er framtíðin ekki fyrirfram ákvörðuð. Það eru aðrir einstaklingar sem
takmarka frelsi mitt sem einstaklings.24
Hér virðist vera komin upp ákveðin pattstaða í heimspeki Macmurrays. Hvern-
ig getur einstaklingur sem raungerir sjálfan sig aðeins í sambandi við aðra ein-
staklinga og getur aðeins framkvæmt með tilliti til annarra einstaklinga verið
raunverulega frjáls einstaklingur? Til þess að leysa þennan vanda skilgreinir hann
frelsi einstaklingsins á ákveðinn hátt sem möguleika einstaklings til að ákvarða
framtíðina með því að framkvæma. Ef allir einstaklingar myndu beita frjálsum
vilja sínum án þess að virða frelsi annarra þá væru þeir alls ekki frjálsir vegna þess
að þá gætu þeir ekki framkvæmt. Gjörðir einstaklinga eiga sér stað á sama sviði,
eða í sama heimi, og þeir beita vilja sínum á sameiginlega framtíð þeirra. Ef tveir
21 Macmurray 1969: 98–99.
22 Macmurray 1969: 100–103.
23 Macmurray 1996: 77–78, Macmurray 1970: 211.
24 Macmurray 1969: 134–135, Macmurray 1970: 118–119.
Hugur 2014-5.indd 27 19/01/2015 15:09:31