Hugur - 01.01.2014, Page 43
Immanuel Kant: Siðfræði 43
reglum siðferðileg skylda okkar sé að fylgja. Meginreglurnar heimila okkur að slá
því föstu að það sé alltaf rangt að stela og ljúga, svo dæmi sé tekið, án tillits til
afleiðinganna.
Snúum okkur nú að þremur þekktustu aðfinnslunum við siðfræðikenningu
Kants:
1. Hún leyfir engar undantekningar frá siðferðisreglum. Eitt af mest áberandi
einkennunum á siðfræði Kants er að það eru engar undantekningar frá þeim
siðferðisreglum sem við ættum að breyta eftir, þar á meðal reglunum um að ljúga
og stela. En er þetta trúverðugt? Vissulega eru að minnsta kosti einhverjar undan-
tekningar frá reglunni „Þú skalt ekki ljúga“. Setjum svo að vitfirringur brjótist inn
til þín, staðráðinn í að drepa börnin þín og krefjist þess að fá að vita hvar þau eru
falin. Auðvitað væri ekki rangt að ljúga við slíkar aðstæður. Þegar allt kemur til
alls verða afleiðingar þess að ljúga ekki hræðilegar.
Kant íhugar einmitt þess konar dæmi en er samt harður á að þú ættir ekki að
ljúga. Að vísu geturðu talið að afleiðingar þess að ljúga ekki verði hryllilegar. En
mundu, segir Kant, að afleiðingar athafnar skipta ekki máli siðferðilega. Allt sem
máli skiptir er að þú gerir siðferðilega skyldu þína. Og siðferðileg skylda þín er
að ljúga ekki.
Þetta er frekar ógeðfelld afleiðing af siðfræði Kants. Liggur ekki í augum uppi
að til eru kringumstæður þar sem það væri siðferðilega viðunandi að ljúga? Er
ekki líka augljóst að alltént í sumum aðstæðum geta afleiðingar af athöfn vissulega
skipt mjög miklu máli?
2. Skyldur sem stangast á. Annar vandi við kenningu Kants varðar siðferðilegar
skyldur sem stangast á. Til dæmis getur verið að þér beri siðferðileg skylda til
að ljúga ekki en líka siðferðileg skylda til að leyfa ekki að saklaus manneskja sé
myrt. Í tilteknum kringumstæðum geturðu ekki uppfyllt báðar skyldur. Í tilviki
vitfirringsins sem brýst inn og krefst þess að fá að vita hvar börnin þín eru falin
hefurðu kannski ekkert annað val en að uppfylla aðra skylduna á kostnað hinnar.
Því miður segir Kant okkur ekki hvernig finna skuli lausn á slíkum árekstrum.
Það er mikil yfirsjón.
3. Tilfinningar skipta ekki máli. Þriðja vandamálið sem kemur upp varðandi sið-
fræði Kants er að hún dregur of mikið úr þýðingu tilfinninga og geðshræringa.
Kannski á siðferðið sér ekki eingöngu rætur í tilfinningum okkar, eins og sumir
heimspekingar hafa gefið í skyn. En það er ekki þar með sagt, eins og Kant vill
meina, að þær tilfinningar og geðshræringar sem við upplifum skipti alls engu
máli siðferðilega.
Hjá Kant er enginn vafi á að ef við breytum eingöngu af samúðartilfinningu þá
breytum við ekki siðferðilega. En er þetta satt? Setjum svo að til sjúklings á spítala
komi tveir gestir. Báðir gestirnir koma á hverjum degi, færandi blóm, ávexti og
gjafir. Báðir gera sitt besta til að gleðja sjúklinginn.
Annar gestanna, Sally, kemur vegna samúðar með sjúklingnum. Hún getur
ímyndað sér hvernig vesalings sjúklingnum líði. Hana langar til að lina þján-
ingu hans og gera hann ánægðari og þessar tilfinningar eru ástæðan fyrir hegðun
hennar.
Hugur 2014-5.indd 43 19/01/2015 15:09:32