Hugur - 01.01.2014, Page 51
Hvernig er hagnýtt siðfræði? 51
Hér er komið að megingagnrýninni á aðstæðugreininguna. Þar er réttilega
lögð mikil áhersla á staðgóða þekkingu bæði á einstökum atriðum og almennum
starfsvenjum, næmi fyrir aðstæðunum og virðingu fyrir hlutverkabundnum skyld-
um, en fyrir vikið skortir gagnrýna fjarlægð á aðstæðurnar. Aðstæðugreininguna
skortir sjálfstæð siðferðileg leiðarljós til að bregða birtu á vandann, rökræða hann
og greina gagnrýnið vegna þess að starfshefðir og hlutverkabundnar skyldur fá
þar of mikið vægi, en almenn siðalögmál og frjáls rökræða of lítið. Siðfræðileg
krafa um að lúta viðmiðum starfsins verður gagnrýninni greiningu yfirsterkari.
Þetta er athyglisvert m.a. vegna þess að saga lífsiðfræðinnar hefur einkennst af
því að almennar siðfræðilegar kröfur hafa skákað viðteknum starfsvenjum innan
læknisfræðilegra rannsókna og heilbrigðisþjónustu. Þannig var uppgangur lífsið-
fræðinnar í Bandaríkjunum á 7. áratug síðustu aldar samofinn aukinni meðvitund
um borgaraleg réttindi og sjálfræði einstaklinga.27 Á hinn bóginn er óhætt að
fullyrða að þessar „utanaðkomandi“ kröfur hafi oft á tíðum gengið of langt og
farið að hafa áhrif á sviðum þar sem þau eiga illa við. Svo dæmi sé tekið var mjög
mikilvægt að grafa undan hefðbundinni forræðishyggju heilbrigðisstétta, og því
blinda trausti sem hún ól á, til dæmis með þeim rökum að sjúklingar ættu rétt á
því að vera upplýstir um meðferðarkosti og taka þátt í ákvörðunum um þá.28 En
umdeilt er hvort það hafi verið sjúklingum til hagsbóta að líta á þá í auknum mæli
sem neytendur sem eigi að hafa sem mest sjálfræði um meðferð sína.29 Þá er horft
framhjá sérstöðu heilbrigðisþjónustu og ýmsum staðreyndum um samband heil-
brigðisstétta og sjúklinga. Aðstæðugreiningin minnir á þessar staðreyndir og leit-
ast við að varðveita innra siðferði stéttarinnar andspænis markaðssjónarmiðum
og öðrum öflum sem grafa undan því. Beiting umdeilanlegra kennisetninga hefur
greitt götu sumra þessara hugmynda og því er spurning hvert eigi að leita til að
finna siðalögmál til mótvægis við hefðartryggð aðstæðugreiningarinnar.
Ígrundaðir siðadómar
Þriðju aðferð hagnýttrar siðfræði sem tekin er til skoðunar í þessari ritgerð má
kenna við ígrundaða siðadóma. Ástæðan er sú að við nálgumst úrlausnarefnin
jafnan í ljósi siðadóma og þeir eru raunar forsendur þess að við sjáum þau sem
siðferðileg viðfangsefni. Við teljum til að mynda alla jafna mikilvægt að komið sé
fram við fólk af sanngirni, velferðar þess sé gætt og sjálfsákvörðunarréttur virtur.
Þessir siðadómar koma mjög oft við sögu þegar greind eru tilvik í heilbrigð-
isþjónustu og dæmigerður siðferðisvandi rís þegar ekki er mögulegt að virða öll
þessi verðmæti í senn. Viðleitni heilbrigðisstarfsmanna til þess að stuðla að velferð
sjúklings getur stangast á við rétt hans til að iðka trú sína, eins og þegar Vottur
Jehóva hafnar blóðgjöf. Viðleitni til að gæta réttlætis í dreifingu gagna og gæða
heilbrigðisþjónustu getur stangast á við ósk manns um að fá rándýra lyfjameðferð.
27 Kuhse og Singer 2001.
28 Ég ræði þetta ítarlega í Vilhjálmur Árnason 2003, einkum 2. kafla.
29 Sjá umræðu um þetta efni t.d. hjá Jost 2007.
Hugur 2014-5.indd 51 19/01/2015 15:09:32