Hugur - 01.01.2014, Page 53
Hvernig er hagnýtt siðfræði? 53
dreifingu gæða og byrða).36 Í tengslum við hvert siðalögmál þarf vitaskuld að huga
að forsendum þess að þau séu virt, svo sem mikilvægi sannsögli, upplýsingagjafar,
ákvörðunarhæfni og samráðs fyrir sjálfræði sjúklinga. Um þessi atriði verður ekki
fjölyrt hér. Jafnframt þarf að huga sérstaklega að tengslum siðalögmálanna við
aðstæður eða hagnýt úrlausnarefni. Það felur í sér bæði mat á umfangi eða gildis-
sviði siðalögmálanna og innbyrðis vægi þeirra þegar þau rekast á í siðferðilega
flóknum aðstæðum.37
Það felst í sjálfri aðferðinni sem byggir á ígrundun siðadóma að ekkert siða-
lögmálanna hefur fyrirfram meira vægi en önnur. Það ræðst af aðstæðunum og
mati á þeim. Hér er meginmunur á kennisetningaleið og ígrundun siðadóma.
Nytjastefnan getur til dæmis vel stuðst við ígrundaða siðadóma, en þegar þeir
rekast á er skírskotað til nytjalögmálsins til að skera úr: „Hafa verður hugfast
að einungis í þeim tilfellum þegar almennar reglur stangast á er nauðsynlegt að
skírskota beint til þeirra frumreglna sem þær eru dregnar af.“38 Hér kemur til
skjalanna sú gagnrýna yfirvegun siðadóma sem miðar að „ígrunduðu jafnvægi“,
samræmi þeirra við grundvallarskuldbindingar okkar í siðferðisefnum og viljinn
til að rökstyðja þá og rökræða fyrir opnum tjöldum. Mannlegt siðferði býður ekki
upp á nákvæmari „lausnir“ og óviðeigandi og óraunhæft er að krefjast þess að
aðferðin leiði til einhlítra niðurstaðna. Sanngjarna og velviljaða menn getur greint
á í þessum efnum, m.a. vegna þess að þeir meta vægi siðalögmálanna með ólíkum
hætti (hvort velgjörð fyrir einstakling sé mikilvægari en félagslegt réttlæti) eða
hafa ólíkar hugmyndir um gildissvið þeirra (á skaðleysislögmálið við um fóstur í
móðurkviði?). Séu þeir reiðubúnir til að takast á við ágreininginn á heiðarlegan og
sanngjarnan hátt verður ekki lengra komist í siðferðisefnum.39
Ég hef í þessari lýsingu leitast við að draga fram kosti ígrundunar siðadóma, en
þessi aðferð hefur fengið á sig margvíslega gagnrýni sem rétt er að gera stuttlega
grein fyrir. Bók þeirra Beauchamp og Childress, Principles of Biomedical Ethics,
hefur fengið gríðarlega útbreiðslu og er líklega langþekktasta rit á sviði lífsið-
fræði í heiminum. Eins og oft vill verða með vinsælar hugmyndir hafa sumir
talsmenn þeirra ekki alltaf gefið af þeim rétta mynd. Þannig eru siðalögmálin
fjögur stundum kölluð „Georgetown-mantran“40 og aðferðinni, sem kennd er við
lögmálshyggju (e. principlism), líkt við útfyllingu tékklista. Þessi gagnrýni kann
að eiga við sum vanhugsuð, dólgsleg og grunnhyggin afbrigði af framsetningu
hugmyndanna, en hún hittir ekki í mark þegar texti Beauchamp og Childress
er skoðaður gaumgæfilega. Því er líka oft haldið fram að aðferðin ýti undir ein-
staklingshyggju vegna þess hve sjálfræðislögmálið sé ríkjandi og trompi hin þrjú.
Þótt þessa kunni að gæta í meðförum ýmissa höfunda, þá hafna Beauchamp og
36 Sigurður Kristinsson 2003: 163–164. Sigurður kallar þetta fjórar höfuðreglur sem „liggi öllum
sérhæfðari siðaboðum til grundvallar“ og lýsir þeim skilmerkilega.
37 Beauchamp og Childress 2001: 18. Þeir kalla þetta „specification“ og „balancing“.
38 Mill 1998: 136.
39 Um ágreining í siðferðisefnum sjá Beauchamp og Childress 2001: 21–22.
40 Þeir Beauchamp og Childress kenndu báðir við Kennedy Center for Ethics við Georgetown-
háskóla í Washington D.C. þegar bók þeirra kom fyrst út 1979. Hún hefur verið endurútgefin
margsinnis.
Hugur 2014-5.indd 53 19/01/2015 15:09:32