Hugur - 01.01.2014, Page 75
Femínísk heimspeki frá sjónarhóli guðfræðings 75
öl heimsins [eigi] rætur að rekja til karla-veldisins“.10 Í samhengi þessa er gripið
til þekktra hugmynda eða kreddna. Fyrst ber að nefna fórnarlambshugsunina um
„konuna sem nokkurs konar eilífðarfórnarlamb“. Í annan stað er því haldið fram
að „munurinn á konum og körlum sé ekki náttúruleg staðreynd heldur félags-
legur tilbúningur karlaveldisins, og loks að „öll vísindalögmál Vesturlanda séu í
grundvallaratriðum bjöguð af feðraveldinu“.11 Og eins og öllum sönnum rétttrún-
aði sæmi þá séu kenningar hans um kyn, þjóðfélagsstöðu, kynþátt og kynhneigð
gerðar að „töfralykli að öllum spurningum um sannleika og ábyrgð“.12 Að mati
Róberts er afleiðing þessara kenninga að einstaklingurinn verði að víkja fyrir vel-
ferð heildarinnar og gagnrýnin sannleiksleit verði að lúta leiðsögn skilgreinds
rétttrúnaðar. Eins og í öllum slíkum rétttrúnaði er gagnrýninni hugsun hér skipt
út fyrir hlýðni.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að slíkur „rétttrúnaður“ er í hreinni
andstöðu við mótandi hugsuði innan femínismans. Aftur á móti virðist fylgja
öllum veigamiklum kenningum og stórsögum að fulltrúar skilgreinds rétttrún-
aðar eigni sér túlkunarvaldið yfir þeim. Að mati Róberts eru þetta erfiðleikar sem
allar áhrifamiklar stefnur kljást við og vísar hann til hliðstæðu þessa, sem var staða
kristindóms á Englandi á miðri 19. öld en Róbert byggir einmitt á umfjöllum
Johns Stuarts Mill um það efni í greiningu sinni.13
Hvað varðar femínismann er ef til vill hluti skýringarinnar á þessari tilhneig-
ingu sá að um pólitíska hreyfingu er að ræða. Innan slíkra hreyfinga eru ákveðin
baráttumál sett í öndvegi og glímt við pólitíska andstæðinga. Aðgreiningin í „við“
og „hin“ er í senn mikilvæg og skýr. Þegar femínisminn verður á níunda og tíunda
áratug síðustu aldar að sjálfstæðri fræðigrein innan háskólasamfélagsins kallar
það á breyttar áherslur og framsetningarmáta því innan háskólasamfélagsins eiga
slíkar grófar aðgreiningar ekki lengur við.14 Femínisminn eða kynjafræðin verður
sem fag að laga, skýra og staðsetja hugtakaheim sinn, aðferðir, greiningartæki o.fl.
að vísinda- og háskólasamfélaginu. Stóran hluta þeirrar spennu og miklu umræðu
sem ríkti innan kynjafræðanna má rekja til þessarar vinnu. Þannig færist áherslan
frá sértækum pólitískum verkefnum yfir á svið faglegrar umræðu. Mikilvægi þess
að greina forsendur femínískra fræða, stöðu þeirra og vægi innan fræðasamfélags-
ins og fyrir samfélagið í heild verður skýrara.15
Femínismi sem guðfræðilegt viðfangsefni
Gróflega má skipta femínismanum á tuttugustu öld í þrjú megintímabil.
Á 20. öld markar bók franska tilvistarheimspekingsins Simone de Beauvoir
(1908–1986) Hitt kynið (Le deuxième sexe, 1949)16 tímamót í femínískri heimspeki.
10 Patai og Koetge 2003: 183; vitnað eftir Róbert H. Haraldsson 2012: 62.
11 Róbert H. Haraldsson 2012: 63.
12 Patai og Koetge 2003: 80; vitnað eftir Róbert H. Haraldsson 2012: 63.
13 Róbert H. Haraldsson 2012: 69–71.
14 Sigríður Þorgeirsdóttir 2001: 50–51, 57, 63.
15 Pritsch 2008: 59–69.
16 Hér er stuðst við þýska útgáfu ritsins (Beauvoir 2012a). Á íslensku hefur titill bókarinnar verið
Hugur 2014-5.indd 75 19/01/2015 15:09:33