Hugur - 01.01.2014, Page 81
Femínísk heimspeki frá sjónarhóli guðfræðings 81
aftur á móti ekki fyrir heill samfélagsins. Rökin fyrir slíkri einstaklingshyggju til-
vistarheimspekinga eru fólgin í því að sjálfræðið krefjist ekki aðeins frelsis heldur
einnig einstaklingsábyrgðar.
Velferð heildarinnar hefur jafnan verið helsta röksemdafærslan gegn sjálfræði
einstaklinga. Þegar frelsi og ábyrgð einstaklingsins rekast á við það sem haldið
er fram að séu viðteknar skoðanir er því gjarnan haldið fram að hið fyrrnefnda
verði að víkja fyrir hagsmunum og velferð heildarinnar.36 Alla jafna er hér vísað til
mikilvægis þess að stöðugleiki ríki og það sagt vera mælikvarði tilvistar mannsins
á meðan tilvistarmöguleikum sjálfráða manna er ýtt til hliðar.
Athyglisvert er að Beauvoir tengir einmitt þessi átök um rétt einstaklingsins
andspænis skilgreindum þörfum heildarinnar við siðbótina en í henni var sam-
viskufrelsið sett á oddinn. Simone de Beauvoir lýsir í bók sinni Allir menn eru
dauðlegir þeim áhrifum sem ræða Lúthers í Worms hafði á eina af sögupersónum
sínum sem hún lætur vera viðstadda yfirheyrsluna:
Munkurinn […] mælti af móði: Ég get hvorki né vil taka neitt aftur sem
ég hef sagt, því hvorki er öruggt né heiðarlegt að vinna gegn samvisku
sinni. Hrollur fór um mig. Þessi orð hæfðu mig eins og ögrun. Og þó
voru það ekki aðeins orðin, heldur hvernig munkurinn sagði þau. Þessi
maður vogaði sér að halda því fram að samviska hans væri þyngri á met-
um en hagsmunir keisaraveldisins og heimsins […]. Ef honum yrði leyft
að halda áfram prédikunum sínum, mundi hann kenna mönnum það, að
hver maður réði sjálfur sambandi sínu við Guð, hver maður væri einnig
sjálfur dómari um gerðir sínar: Og hvernig ætti ég þá að fá þá til að
hlýða? […] Hér var annað í húfi: sjálft verkið sem mig hafði dreymt um.
Það gat ekki náð fram að ganga nema mennirnir létu af duttlungum sín-
um, sjálfselsku sinni og vitleysum. Og það var þetta sem kirkjan kenndi,
hún bauð þeim að hlýða einum lögum, beygja sig undir eina trú.37
Beauvoir rekur hér raunir manns sem telur sig hafa velferð heildarinnar í huga
og sér hið þýska keisaradæmi miðalda liðast í sundur ef sjálfræði einstaklings-
ins, sem samviskufrelsið nærir, nær fram að ganga. Að mati Beauvoir er Lúther
með áherslu sinni á samviskufrelsið brautryðjandi einstaklingshyggju, sem leiddi
síðar til tilvistarheimspekinnar.38 Þar er einmitt réttur einstaklingsins ekki látinn
víkja fyrir skilgreindum þörfum heildarinnar. Ekki hefur skort gagnrýni á kröfu
Lúthers um vægi samviskufrelsisins. Margir lofa hann fyrir hana, en aðrir hall-
mæla honum og draga upp apókalyptískar myndir og heimsendaspár um að með
áherslu sinni á einstaklingsfrelsi hafi hann sundrað einingu menningar og þjóða
í Evrópu. Þetta eru raunar röksemdir sem jafnan er gripið til þegar varað er við
jafnréttisbaráttu og annarri réttindabaráttu einstaklinga eða hópa.
36 Schönherr-Mann 2007: 191.
37 Beauvoir 1983a: 159–160.
38 Þess ber þó að gæta að samkvæmt Lúther er samviskan ekki frjáls nema hún bindist orði Guðs.
Sigurjón Árni Eyjólfsson 2000: 164–167, 195–234.
Hugur 2014-5.indd 81 19/01/2015 15:09:33